139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Málið sem hér um ræðir og málatilbúnaðurinn minnir orðið um margt á stórkostlegt ljóð sem heitir Skarphéðinn í brennunni eftir Hannes Hafstein og hefst þannig: „Buldi við brestur, brotnaði þekjan. Reið niður rjáfur og rammir ásar.“

Atlagan að sjávarútvegskerfinu sem gerð hefur verið og tilraunin til að endurskapa það er ágætlega dregin saman í þessum ljóðlínum. Þegar maður varð vitni að framsöguáliti formanns sjávarútvegsnefndar hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur í gær minnti það dálítið á lýsinguna af Skarphéðni í brennunni þar sem hann glotti við tönn og stóð einn. Hún var ein án fyrirvara á nefndaráliti meiri hluta stjórnarinnar á þessu máli. (Gripið fram í: Sáttin.)

Ég skal alveg viðurkenna að ég hef töluverðar áhyggjur af þessu því við vitum öll hvernig fór fyrir Skarphéðni þótt hann glotti við tönn og stæði einn. Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki náð þeim markmiðum sem allir hafa gefið í skyn að þeir hafi við að endurskapa og ná sátt um kerfið, því vinnubrögðin og sundrungin valda því að allir falla.

Fram hefur komið frá varaformanni sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að hún líti svo á að málið sem við ræðum sé vart þingtækt. Ég vil því spyrja hv. þingmann, sem ég veit að hefur fullan skilning á þessum sjónarmiðum öllum, hvort við getum verið sammála um að betur færi að við legðum saman og fyndum leiðir til að skapa tíma til að vinna málið betur en raun ber vitni.