139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú dregur að lokum 2. umr. um þetta frumvarp og fyrir alla þá sem fylgst hafa með umræðunni og gangi málsins í gegnum þingið, hvernig því hefur verið tekið af umsagnaraðilum og hversu sterklega er mælt með því að því verði breytt af sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er öllum augljóst að hér hefur ekki verið vandað mjög til verka í aðdraganda og við undirbúning frumvarpsins. Langflest sjónarmið eru þegar komin fram um efnislegar athugasemdir en í þessari umræðu vil ég sérstaklega vekja athygli á einu. Það stefnir í að meiri hlutinn á þinginu taki ákvörðun um að bæta um það bil 4.500 tonnum í strandveiðar og byggðatengdar aðgerðir. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin boðað að áfram verði unnið að heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða og í því felst m.a. að svo kunni að fara að áfram verði haldið á þeirri braut.

Í upphafi þess kjörtímabils sem nú er hálfnað voru í þessum byggðatengdu aðgerðum um það bil 12 þúsund tonn. Gangi þetta eftir sýnist mér að hæstv. sjávarútvegsráðherra takist með þessu, ásamt því sem áður hefur verið ákveðið á þessu kjörtímabili, að því sem næst tvöfalda þessa fjárhæð. Ráðherrann hefur fengið til sín a.m.k. 10 þúsund tonn til úthlutunar eftir þessum aðferðum til viðbótar við það sem áður gilti. Það er því sem næst tvöföldun. Því er síðan fylgt eftir með þeim skilaboðum að menn séu ekki hættir. Uppi eru hugmyndir um að búa til leigupotta. Frumvarpið sjálft bar það með sér að ráðuneytið óskaði eftir því að fá mörgum þúsundum tonna rýmri heimildir til að ráðskast með. Það er alveg gríðarlega óheillavænleg þróun. Það er þróun sem er öll í átt til aukinnar miðstýringar. Það er þróun í átt til aukinnar óhagkvæmni. Ég hef tekið eftir því að þeir sem mælt hafa fyrir þessu máli og mæla sérstaklega fyrir þessum tillögum mæta ákaflega sjaldan í ræðustól til að færa fram rök fyrir því hvaða sanngirni það er að taka þessar heimildir af þeim sem eru í hlutdeildarkerfinu.

Hver er sú réttlæting? Er það vegna þess að þeir hafa það svo óskaplega gott? Eða máttu þeir vita það þegar þeir sóttu til sín heimildir, keyptu þær til sín, að þær yrðu af þeim teknar án bóta og þeir mundu sæta skerðingum í framtíðinni? Eru það skilaboð til þeirra? Mér finnst menn skulda útgerðarmönnum sem eru inni í kerfinu í dag skýringar á því. Það er oft látið að því liggja að þetta sé vegna þess að ráðherrann þurfi að hugsa um hinar dreifðu byggðir, landsbyggðin standi svo höllum fæti. En af hverjum er verið að taka? Hvar eru heimildirnar sem við erum að fjalla um? Skyldu menn hafa áttað sig á því að hartnær 9 af hverjum 10 kg eru úti á landsbyggðinni þannig að menn hræra bara heimildum frá einum stað til annars. Það er verið að færa heimildir til ráðherrans til að taka tonn frá einni byggð og færa yfir í einhverja aðra, frá einni útgerð yfir í einhverja aðra. Mér finnst það ekki ósanngjörn krafa þegar menn eru beðnir um að færa fyrir því einhverja réttlætingu, að menn líka undirgangist það og viðurkenni að þetta er ekki til aukinnar hagræðingar fyrir greinina. Það blasir svo við að með þessu er verið að troða mönnum um tær sem eru inni í kerfinu í dag og valda þeim óvissu og því finnst mér stjórnarliðar skulda þeim frekari skýringar en hér hafa komið fram, ég verð að segja það. Ég verð líka að lýsa miklum áhyggjum af því að sú stefna sem stjórnarflokkarnir reka og birtist okkur í stærra frumvarpinu, sem verður ekki gert að lögum á þessu löggjafarþingi, er í sömu átt, það á að halda áfram á sömu braut. Af því hef ég miklar áhyggjur.

Ég vil taka það fram að gefnu tilefni vegna þess að því er alltaf beint til okkar í Sjálfstæðisflokknum að þegar við tölum um útgerðina séum við að tala um fá stór fyrirtæki. Ég er að tala um litlu og stóru fyrirtækin. Ég er að tala um einyrkjana í þessum bransa. Ég er að tala um alla sem eru inni í kerfinu. Ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir þetta frumvarp, þrátt fyrir þær breytingar sem verið er að gera blasir áfram óvissa við öllum þessum aðilum, við útgerðinni í landinu. Það er það sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á á þessu kjörtímabili. Hún lagði af stað inn í kjörtímabilið með stjórnarsáttmála þar sem boðuð var innköllun allra aflaheimilda. Frá þeim tíma hefur ríkt fullkomin óvissa í greininni.

Nú eru liðin tvö ár frá því að stjórnarsáttmálinn var settur saman. Hvar erum við stödd? Búið er að boða frumvarp í haust, við vitum ekki hvað í því felst. Við vitum bara að síðast þegar ríkisstjórnin kom fram með slíkt frumvarp, það sem nú liggur inni á þinginu, hélt hún því hjá sér í átta mánuði án þess að hleypa hagsmunaaðilum að, án þess að hleypa öðrum þingflokkum að og hún mun eflaust vinna það þannig aftur, sitja með það í fanginu á sér, reyna að hnoða saman einhverju frumvarpi sem fáir útvaldir úr þingflokkum beggja stjórnarflokkanna fá að koma að. Áfram gildir því óvissan, áfram lifir hún. Það dregur úr fjárfestingu og allt veldur það skaða fyrir heildina. Ég tala fyrir heildarhagsmunum okkar Íslendinga. Heildarhagsmunir okkar liggja með útgerðaraðilum í þessu landi, með því að menn geti fengið að stunda útgerðina í friði, að menn hafi einhverja vissu fyrir því hver umgjörðin er, að menn séu með tryggt umhverfi og séu tilbúnir að fjárfesta vegna þess að þeir vita hvað framtíðin ber í skauti sér, að þeir búi ekki við það ástand að hér sé ríkisstjórn í landinu sem sé með sífelldar yfirlýsingar og með hótanir um að kippa forsendum rekstrarins undan mönnum. Það er óskaplega dapurlegt, ekki síst þegar haft er í huga að menn hafa gengið í gegnum mjög erfiða tíma til að gangast undir nauðsynlega hagræðingu, við erum farin að sjá bjartari tíma og stofnarnir eru í vexti, góð tíðindi fyrir heildina og fyrirtækin ganga svo sem ágætlega. Nei, þá á að fara aftur í gamla farið og láta ráðherrann hafa heimildir og kippa undan aflahlutdeildarkerfinu, kerfinu sem við höfum náð þessum árangri með.

Það stefnir sem sagt í að ríkisstjórnin vilji halda áfram á þessari braut. Ég boða hér með mjög harða andstöðu af okkar hálfu við frekari áform af þessum toga. Ég skora á menn nú þegar umræðunni er að ljúka að koma upp í ræðustól, á hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem getur ekki varist brosi undir þessari ræðu eða hæstv. ráðherra sem mér sýnist ætla að fara í andsvar. Ég skora á hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að tala til þeirra sem sæta þessum skerðingum. Frú forseti. Ég vildi gjarnan fá hv. þingmenn til að koma hingað upp og tala sérstaklega til þeirra sem keypt hafa sér aflaheimildir fullu verði — nóg hafa þeir talað til hinna — og útskýri fyrir þeim hvers vegna það er svo ómögulegt að þeir séu í útgerð, hvers vegna nauðsynlegt sé að taka heimildir af þeim og ráðstafa þeim eitthvert annað í gegnum ráðuneytið. Ég mundi gjarnan vilja fá menn hingað upp til að staðfesta það sem ég er að segja, að heimildirnar eru nú þegar meira eða minna allar úti á landi. Það er bara verið að hræra í þessu og færa frá einum stað til annars.

Það er það sem stendur upp úr í lok þessarar umræðu. Tekist hefur verið á um fjölmörg ákvæði þessa frumvarps. Ég ætla ekki að nota tíma minn til að fara ofan í ýmsar efnisgreinar. Ég sé að það er ætlun nefndarinnar að leggja til fjölmargar breytingartillögur sem draga úr tjóninu á þessu máli en þetta er stóra samhengið. Meiri pottar, meiri miðstýring, minni hagkvæmni og troðið á þeim sem hafa í góðri trú og á grundvelli gildandi laga sótt til sín heimildir og reynt að byggja upp fyrirtæki sín. Þeir fá fyrirvaralaust kveðjur frá ríkisstjórninni, ráðherranum og stjórnarmeirihlutanum um að þeir séu óheppilegir til að halda áfram á sömu forsendum, aðrir eigi nú að komast að. Það sé nýliðunin sem nú gildir. Það gera of fáir út á Íslandi. Það eru skilaboðin.

Þetta læt ég duga.