139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta verða aðeins nokkur orð af minni hálfu. Menn töluðu áðan um ófriðar- og ágreiningsbál og ég ætla að vona að mér takist að flytja stutta tölu án þess að kveikja mikla elda.

Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með að vel horfir með afgreiðslu þessa litla frumvarps. Ég tel það mjög mikilvægt og ég þakka hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ekki síst formanni hennar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir að leiða það starf.

Ég tel að þær lagfæringar sem hér er verið að gera, breytingartillögur og nýjar breytingartillögur séu skynsamlegar og til mildunar á þeim aðgerðum sem í frumvarpinu felast án þess þó að horfið sé frá þeim grundvallarmarkmiðum sem því voru sett og ég tel að séu skynsamleg. Ég nefni sérstaklega það sem ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að telja í rétta átt, að allar kvótabundnar tegundir og útgerðir almennt í landinu leggi með einhverjum hætti sameiginlega í sjóð vegna þeirra hliðarráðstafana sem gerðar eru utan við hefðbundna aflamarkskerfið.

Nú horfir sem betur fer vænlega með aflaaukningu í þorski á komandi árum og þá held ég að réttlætanlegt sé að taka lítinn hluta þeirrar aukningar, eins og þetta litla frumvarp gengur út á og verður ekki af því nema um aflaaukningu verði að ræða, til að styrkja þær aðgerðir í kerfinu sem snúa t.d. að strandveiðum til eflingar byggðar og mannlífs, sérstaklega í litlu sjávarplássunum vítt og breitt á ströndinni og sömuleiðis hafa meira í forða til að geta gripið til byggðatengdra ráðstafana.

Ég held að menn ættu að minnast þess að þetta kerfi hefur frá upphafi aldrei gengið öðruvísi en þannig að unnt væri að bregðast við aðstæðum og mæta hlutum sem koma upp í tengslum við áföll eða röskun sem kerfið sjálft hefur í för með sér. Menn vitna mikið til breytinganna 1991 og þá er rétt að minna á að samhliða því sem þá var ákveðið, að opna fyrir framsal veiðiheimilda og var ekki auðveld fæðing, átti að leggja mun meira í hliðarráðstafanir vegna þess að allir gerðu sér grein fyrir því, eins og vitnað var til þáverandi sjávarútvegsráðherra, að það mundi hafa víðtæk áhrif, ekki síst í byggðalegu tilliti. Því var ætlunin að mæta með mun umfangsmeiri hliðarráðstöfunum en síðan var staðið við. Þessu geta menn flett upp.

Það er ekki nýtt af nálinni að menn átti sig á þeim pólitíska og byggðalega veruleika að ekki er hægt að keyra einfalt aflamarkaðskerfi með frjálsu framsali án þess að taka tillit til annarra hluta eins og atvinnuöryggis og byggðafestu í landinu og það hefur ekki verið reynt undanfarna áratugi. Spurningin er þá bara hvað þarf til, hvernig má útfæra það svo að sæmilegur friður geti orðið. Ég vona að það sem einmitt er verið að gera hér geti skapað meiri frið um að menn leggi sameiginlega af mörkum á grundvelli sanngjarnra reglna. Þær þarf áfram að fara betur yfir og útfæra til að þessar hliðarráðstafanir séu til staðar því að mínum dómi munu menn lengi þurfa á slíkum ráðstöfunum að halda.

Ég tel líka að það sem hér er opnað á sé skynsamlegt og ég styð það í prinsippinu, að ef svo vel gengur á komandi árum að umtalsvert meiri auðlindarenta kemur úr greininni til hins opinbera fái sveitarfélög eða sjávarbyggðir einhverja hlutdeild í því með tilteknum hætti. Mér finnst eðlilegt að horfa til þess að nærumhverfið fái að njóta góðs af því í einhverjum mæli. Þá þurfa að sjálfsögðu samskipti þessara aðila að skoðast betur í því ljósi.

Ég lít svo á að við stöndum öll frammi fyrir mikilli áskorun, allir flokkar sem eru í stjórnmálum í landinu og sjávarútvegurinn sjálfur; að reyna að leiða þessi mál áfram til farsællar niðurstöðu. Því verður ekki neitað að öllum hefur verið til stórtjóns hversu illa hefur gengið að ná fram betri friði um grundvallarfyrirkomulag í þessari grein. Það er engum til góðs að þannig haldi áfram. Má ég minna á að allir viðurkenna að gera þurfi breytingar á kerfinu eins og það hefur verið undanfarin ár, þar með talið LÍÚ. Allir viðurkenna að tilteknir hlutir eru þarna á ferð sem við þurfum að takast á við og gera breytingar á. Er þá ekki rétt að fara í það? Mér finnst menn vera fullverkkvíðnir og hræddir við að halda því starfi áfram sem er augljóslega fram undan. Ef menn bregðast alltaf þannig við þegar hugmyndir og tillögur koma fram að byrja á því að skjóta þær allar niður, hvert komast menn þá? Þó viðurkenna menn um leið að ástandið er ekki gott að ýmsu leyti.

Segja má að aflamarkskerfið hafi um sumt heppnast vel en aðeins um sumt. Það hefur vissulega falið í sér möguleika til hagræðingar í greininni en það hefur ekki verið án sársauka. Eins og sú hagræðing kemur út leggur hún um leið byrðar á sjávarútveginn sjálfan. Er það ekki þannig að drjúgur hluti skulda sjávarútvegsins er vegna þess að menn borga með reglubundnum hætti aðilum sem fara út úr greininni og þeir sem halda áfram skuldsetja sig á móti? Þetta er eðli kvótakerfa þar sem aðgöngumiðinn að takmarkaðri auðlind eða takmörkuðum stuðningi frá ríkinu tekur á sig verðgildi og ekki er gott til frambúðar að hreyfing í greininni þurfi alltaf jafnóðum að kosta skuldsetningu á þá sem eftir er. Auðvitað viðurkenna menn þetta, að minnsta kosti í tveggja manna tali. Það hefur aldeilis ekki verið án fórna eða var ekki þegar kvótaverðið fór í hæstu hæðir.

Ég lít því svo á, frú forseti, að ágætis áfangi sé að ná afgreiðslu á þessu litla máli og gera þær tímabundnu ráðstafanir sem þar eru á ferðinni á þessu fiskveiðiári og hinu næsta. Ég tel að búið sé að vinna vel í að útfæra þær og laga þannig að allir eigi að geta setið sæmilega sáttir við. Síðan heldur verkið áfram.