139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[13:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er rétt að við ræddum þetta mál í vor og það er eitt af þeim málum sem gleymdust í óðagotinu. Ég legg til að forsætisnefnd ræði það í sínum ranni hvort ekki ætti að fá verkfræðistofu til að skipuleggja verkferlana hér innan húss þannig að svona gerist ekki aftur. Það lá við að hið sama gerðist með frumvarpið um réttindagæslu fyrir fatlað fólk en sem betur fer var minnt á það, þ.e. ég gerði það reyndar, og það náðist að bjarga því fyrir horn. En þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem sýna fram á skipulagsleysi, frú forseti.

Það sem ég ætlaði aðallega að ræða er ekki endilega frumvarpið sjálft heldur ferillinn. Frumvarpið er lagt fram 19. maí sem stjórnarfrumvarp í kjölfar samninga, einhverjir aðilar úti í bæ gera kjarasamning sín á milli og þeir hafa rétt til þess. En þeir blönduðu löggjafanum inn í kjarasamningana, þeir sömdu lög fyrir löggjafann til að samþykkja. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem ekki ættu að líðast, frú forseti. Fólkið sem gerði þessa samninga var ekki kosið á þing til að semja lög fyrir Ísland.

Frumvarpið kemur sem sagt fram 19. maí og er rætt daginn eftir, með afbrigðum ef ég man rétt, umræðan er mjög stutt og síðan koma atkvæðagreiðslur í kjölfarið. Málið fer til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd og þar er ekki tími til þess að kalla eftir vönduðum umsögnum þeirra aðila sem málið snertir. Þetta var jú samkomulagsatriði aðila vinnumarkaðarins og þar með töldu menn kannski að ekki þyrfti að leita frekari umsagna. En það gæti verið að einhverjir aðilar í þjóðfélaginu hefðu af þessu áhyggjur.

Kallaðir voru til nokkrir gestir, frá velferðarráðuneytinu, frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Kennarafélagi Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Það voru sem sagt kallaðir til gestir frá einmitt þeim aðilum sem höfðu samið um þessa lagasetningu. Aðrir aðilar sem hugsanlega væri gagnrýnni á lagasetninguna komu ekki að.

Málið var síðan afgreitt út úr nefndinni 1. júní, ellefu dögum eftir að málið hafði verið rætt, og hafði þá verið rætt í nefndinni síðan 27. maí. Það er síðan rætt 6. júní, fimm dögum seinna. Allt gerist þetta á mjög miklum hraða og hefur lítið að gera með vandaða lagasetningu og vandað samráð við þá aðila í þjóðfélaginu sem málið kann að varða. Eins og ég gat um fer 2. umr. fram 6. júní, síðan framhald 2. umr. og atkvæðagreiðslur. Fram komu breytingartillögur eins og hér var nefnt og svo sofnar málið í öllum látunum. Núna er það aftur til umræðu og er verið að bjarga því fyrir horn að hægt sé að greiða út hlutaatvinnuleysisbætur.

Allt er þetta ekki nógu gott, frú forseti, og ég geri töluvert miklar athugasemdir við það og æski þess að svona hraðafgreiðslu þingmála, hraðafgreiðslu lagasetningar, linni. Þetta er farið að minna ansi illilega á tilskipanaþjóðfélag þar sem stjórnvöld beita bara tilskipunum: nú á að gera þetta og nú á að gera hitt; og vönduð lagasetning fer ekki fram. Við vandaða lagasetningu þarf nefnilega að leita samráðs við aðila sem málið kann að varða, ekki bara þá sem sömdu um að lögin yrðu sett. Það þarf að leita samráðs töluvert út fyrir rammann þannig að við fáum fram öll sjónarmið í þjóðfélaginu um málin sem við ræðum.

Þetta var það sem ég vildi helst setja út á frumvarpið. Að sjálfsögðu vil ég ekki standa í vegi fyrir því að hægt sé að greiða út hlutaatvinnuleysisbætur, það er ekki málið. Ég er meira að segja mjög hlynntur hlutaatvinnuleysisbótum sem ég hef fengið upplýsingar um að eru til víða í Evrópu, t.d. í Þýskalandi, og hafa verið til mjög lengi, og hafa reynst vel og ætti í rauninni að standa vörð um. Ég vildi koma hér upp til að gera athugasemdir við þennan vinnsluhraða.

Hvað varðar gjaldþrota fyrirtæki og yfirtöku þeirra eða aðilaskipti þá benti ég á það á sínum tíma að fyrirtæki sem verður gjaldþrota kann að vera rekstrarhæft ef laun eru lækkuð, sem það væri ekki ella. Mér sýnist að í þessum lagatexta, þó að ég hafi ekki haft tíma til að fara nákvæmlega ofan í hann, sé það þannig að fara skuli eftir kjarasamningi og það megi því ekki lækka laun. Þá getur komið upp sú staða að aðili sem gæti hugsanlega tekið fyrirtækið yfir og vilji reka það, geri það ekki af því að hann verður að standa við kjarasamninga og þarf jafnvel að fara í kjaraviðræður við stéttarfélög sem hafa kannski ekki endilega áhuga á því að viðhalda þessum rekstri. Ég vil því að menn fari í betra tómi ofan í það hvort menn séu jafnvel að skjóta sig í fótinn með því að gera of strangar kröfur til þeirra sem hugsanlega geta tekið yfir gjaldþrota fyrirtæki og bjargað rekstrinum.