139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra Guðbjarti Hannessyni fyrir ágæta ræðu og það hvað hann tekur vel á þessum málum. Ég legg til að menn fari nú að skoða ferli lagasetningar alveg frá grunni allt frá því að lagafrumvörp eru samin og þar til þau eru flutt á þingi og síðan ferlið í nefndunum og að þetta verði allt skipulagt betur. Það sem ég sagði áðan var alls ekki gegn nefndarformönnum þannig séð. Þeir eru náttúrlega hluti af því kerfi sem er á Alþingi og hefur verið mjög lengi við lýði. Ég tel að skerpa þurfi á framkvæmdinni, nákvæmlega eins og þegar menn byggja hús, þá eiga gluggarnir að koma á ákveðnum degi, steypan á að koma á öðrum degi o.s.frv.

Ég legg því til að hæstv. ráðherra komi þessum skilaboðum til hæstv. ríkisstjórnar og að þar verði þau mál kynnt á haustin, eins og iðulega er gert, sem menn ætla að flytja lagafrumvörp um en eftir það fari menn í samstarf við viðkomandi nefndir um framkvæmdina og sett verði tímaáætlun um hvenær lagafrumvörp verða tilbúin til framlagningar þannig að menn viti að lög geta t.d. komið fram þess vegna 7. febrúar eins og hvern annan dag. Núna virðist allt vera miðað við 1. apríl af því að það er í þingskapalögum.

Ég man þá tíð þegar ég var í stjórnarliði að menn fengu kannski nokkur kíló af þingmálum einmitt þennan ágæta dag, síðasta dag mars. Það var ekki nokkur leið, ekki einu sinni að lesa þau, hvað þá að fara að ígrunda nákvæmlega hvað þau þýddu. Ég mundi því vilja sjá miklu meira samstarf löggjafarsamkundunnar og þeirra sem semja lögin. Helst vildi ég náttúrlega, eins og ég hef margoft sagt, að lögin yrðu samin á nefndasviði Alþingis sem fengi aukinn styrk til þess.