139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nota kannski þennan andsvaratíma minn til að leiðrétta mig aðeins vegna þess að ég held að ég hafi sagt að allir nefndarmenn væru á nefndarálitinu, en athygli mín hefur verið vakin á því að þeir eru átta. Einn nefndarmaður, hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, er ekki á nefndarálitinu. Hún er heldur ekki með sérstakt nefndarálit án þess að ég fari að útskýra það nokkuð. Hún er fullfær um það.

Ég ætla líka að segja vegna orða hv. þingmanns um fyrirvara sjálfstæðismanna að það var sagt í gamansömum tón vegna þess að vinnulagið í iðnaðarnefnd með öllum nefndarmönnum hefur verið alveg sérstaklega gott. Ég held að ég megi segja að nánast öll mál hafi verið tekin þaðan út í fullri sátt nema kannski eitt Byggðastofnunarmál, en það fór á annan veg og var ekki rætt meir og verður ekki þótt það hafi verið leyst á annan hátt. Ég vildi láta það koma fram hér.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér hef ég engu við það að bæta sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fjallaði um nema bara að það er ánægjulegt að full samstaða var í nefndinni um þetta mál. Þess vegna er ég viss um að við munum klára það í næstu viku og gera þetta frumvarp að lögum. Þá er okkur ekkert að vanbúnaði að fara að undirbúa okkur, sem við erum þegar farin að gera, undir hið mikilvæga útboð. Það verður ákaflega merkilegt og mikilvægt fyrir íslenska þjóð að kanna þær auðlindir sem þarna kunna að vera. Þarna kann að vera gullkista sem við getum opnað á komandi árum.