139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[15:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem liggur fyrir og iðnaðarnefnd gefur umsögn sína um er gríðarlega mikilvægt og á sér töluverðan aðdraganda. Sem betur fer hefur málinu verið stýrt með þeim hætti, eins og fram kom hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni áðan, að samstaða er um það í nefndinni. Átta af níu nefndarmönnum eru með á þessu máli og vilja koma því áfram. Hv. þingmaður vitnaði til þess að ekki hefði náðst sambærileg samstaða um neitt annað mál. Ég vil nefna annað mál þar sem þverpólitísk samstaða náðist um þjóðþrifamál á sviði auðlindanýtingar, það var tillaga sem flutt var um rannsóknir á olíu- og gassetlögum á Skjálfandaflóa. Ber að þakka þá samstöðu sem þar náðist og forustu formanns iðnaðarnefndar í því máli. Nú liggur fyrir í kjölfar samþykktar Alþingis á þeirri þingsályktunartillögu að vinna þarf að því að fullnusta hana og leita leiða til þess að fjármagna þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru á því svæði. Áætlaður kostnaður við það er einhvers staðar um 10–15 millj. kr. og má vel hugsa sér að þeim rannsóknum verði stillt upp með þeim hætti að þeir aðilar og fyrirtæki sem hafa hug á því að rannsaka þetta svæði og ná ákveðnu forskoti á því fjármagni sömu rannsóknir þannig að við þurfum ekki að leggja út fyrir því úr ríkissjóði. Ég beini þeim tilmælum til forustumanna iðnaðarnefndar að hefja vinnu við það mál þegar við upphaf næsta þings.

Ég get heldur ekki leynt því að ég er mjög ánægður með að það mál sem liggur fyrir er komið á rekspöl og hef ásamt hópi þingmanna úr Norðausturkjördæmi flutt tillögur á þingi sem tengjast því efni. Sveitarfélögin á norðausturhorninu hafa á mörgum undanförnum árum lagt mjög mikla vinnu í þetta mál og verið að undirbúa leiðir til þess að auka umsvif sín í tengslum við að leit og rannsóknir á svokölluðu Drekasvæði hefjist.

Sveitarfélögin Þórshöfn og Vopnafjörður hafa unnið saman að málinu í þrjú til fimm ár, að ég held, og horft til ýmissa kosta í þeim efnum. Er það vel. Ég tek eftir því að í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar er frískað upp á — ekki endilega á vegum iðnaðarnefndar en sérstaklega á vegum efnahags- og skattanefndar — tiltekin atriði sem eru í núgildandi lögum og lúta að þessum málum, sérstaklega sköttum. Almælt var, og ég held að það sé allmikið til í því, að í lagaumgjörð um starfsemina sem ekki hefur enn verið breytt, hafi verið mjög íþyngjandi kröfur gagnvart þeim sem vildu fá leyfi til að rannsaka og að skattumhverfið sem rannsóknavinnunni var búið hafi verið þannig að það fældi frá þá sem hugsanlega höfðu áhuga. Það hafi í rauninni ekki verið í neinu samræmi við eðli þeirra framkvæmda eða þeirrar starfsemi sem þar á að fara fram.

Það er hins vegar eitt atriði sem ég vil gera að sérstöku umtalsefni. Það er lýtur að skilyrði sem greinir frá í 10. gr. 7. mgr. þar sem segir að kolvetnisstarfsemi og tengd starfsemi skuli rekin frá stöð á Íslandi. Það er ákvæði sem sett var inn í lögin af hálfu fyrrverandi iðnaðarnefndar eftir að mjög breið samstaða náðist um það. Markmiðið með ákvæðinu var að reyna að tryggja með öllum hætti að þau umsvif sem kynnu að leiða af þeirri starfsemi sem fer vonandi brátt í gang yrðu hér á landi. Fyrirmyndin að ákvæðinu var sótt í lagasetningu sem tengdist olíuvinnslu við Færeyjar þar sem skilyrt var að rannsóknir yrðu gerðar út frá höfn í Færeyjum. Við töldum á þeim tíma fullkomlega eðlilegt og heimilt að standa þannig að málum í gildandi lögum.

Lagðar eru til ákveðnar breytingar í þessu efni í því frumvarpi sem liggur fyrir. Nefndarálit meiri hluta iðnaðarnefndar undirstrikar hvernig þær tillögur eru til komnar. Ástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld gera þessar breytingar eru m.a. ábendingar — eða kvartanir gætum við sagt — frá Norðmönnum sem skiluðu ESA tillögum að breytingum í þessum efnum. Við því bregst ESA nú og gerir tillögu Norðmanna að sínum.

Ég vil af því tilefni segja að Norðmenn eru, eins og öllum er kunnugt, olíuþjóðin á norðurslóð. Þeir eru ekki í þessari starfsemi af einhverri gæsku eða góðmennsku við aðrar þjóðir. Það er keppni um að ná yfirráðum yfir þessum auðlindum. Það er keppni um að skapa þjóðunum sem mestan arð af þeirri starfsemi sem tengist vinnslu þessara auðlinda og að sjálfsögðu vilja Norðmenn tryggja hagsmuni sína í öllu því sem lýtur að þessu regluverki.

Það er engin ástæða til að gera þetta af einhverri greiðasemi við Norðmenn. Þvert á móti vil ég ítreka það, og tek undir það sem meiri hluti iðnaðarnefndar leggur til við íslensk stjórnvöld, að við reynum að haga málum með þeim hætti að forræði okkar og umsvif í tengslum við þessa vinnslu verði örugglega hér innan lands. Nefndin leggur til að settar verði fram ákveðnar kröfur til leyfishafa um að nota ákveðnar stöðvar og jafnvel takmarka fjarlægð frá viðkomandi rannsókna- og vinnslusvæði, þó að teknu tilliti til þeirra reglna sem gilda um meðalhóf.

Í mínum huga er spurningin hins vegar sú hvort meiri hluti iðnaðarnefndar taki þarna nægilega sterkt til orða því að ég er þeirrar eindregnu skoðunar að við eigum að gera mjög stífa kröfu til íslenskra stjórnvalda um að ekki verði horfið frá markmiðum varðandi lagasetninguna sem frá greinir í 7. mgr. 10. gr. núverandi laga sem var beinlínis, eins og ég gat um áðan, sett inn til að nota það fordæmi sem Færeyingar settu varðandi rannsóknarvinnu við olíuvinnslu á sínum svæðum.

Að ESA geri athugasemdir á grunni tillagna frá Norðmönnum bendir enn fremur til þess og styrkir í rauninni grunsemdir manna um að Norðmenn fylgist mjög vel með því sem Íslendingar eru að gera í þessum efnum. Norðmenn eiga nefnilega ríkra hagsmuna að gæta í því hvernig vinnslu á Drekasvæðinu verður háttað ef rannsóknir gefa ástæðu til þess að menn geti farið að vinna þar olíu eða gas. Þess vegna hef ég lúmskan grun um að Norðmenn hafi í sjálfu sér ekkert grátið þann drátt sem varð á afgreiðslu þessa máls hjá Íslendingum í vor því að það gefur þeim einfaldlega rýmri tíma til þess að ná ákveðnu forskoti á svæðinu umfram Íslendinga í keppninni um að komast sem fyrst að niðurstöðu varðandi Drekasvæðið.

Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna og fagna því að það er mjög mikil og breið samstaða um málið. Það er löngu tímabært að koma þessum málum til betri vegar. Ég vek sérstaka athygli á því að sú mikla samstaða sem náðist um þingsályktunartillöguna um rannsóknir á olíu og gassetlögum á Skjálfandasvæðinu hvetur okkur til að hefjast handa við að leita leiða við að koma henni til framkvæmda. Ég treysti á örugga forustu iðnaðarnefndar í því ágæta hagsmunamáli, ekki bara fyrir Norðlendinga heldur fyrir þjóðfélagið allt.