139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[15:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit hv. iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með síðari breytingum. Ég vildi blanda mér inn í þetta mál í fyrsta lagi vegna þess sem ég nefndi hér fyrr í dag, skipulags verka hjá Alþingi. Ég ítreka að það þarf að skipuleggja þetta miklu betur. Menn eiga að læra af verkfræðingum hvernig verkferlar eru skipulagðir. Ef byggja á hús þarf að gera ráð fyrir steypubílum ákveðinn dag. Fyrst þarf náttúrlega að slá upp og svoleiðis. Þetta eru allt saman ákveðnir ferlar sem eiga að klárast á ákveðnum degi o.s.frv. Þetta mætti gera við lagasetningu líka. Þá týnist ekki eitthvert mál í meðförum þingsins. Þegar verkfræðingar hafa svona skipulag á hlutunum týnist til dæmis ekki eða gleymist að panta glugga eða setja þá í.

Olíuleit er afskaplega áhættusöm viðskipti. Allir sem koma nálægt henni þurfa að gera sér grein fyrir því að þetta er með því áhættusamasta sem menn gera og kíkja kannski pínulítið í líkindafræði þegar þeir taka afstöðu til hennar. Um er að ræða mjög erfitt svæði og líkurnar á að finna olíu eru ekki miklar. Líkur eru á að eitthvað geti komið upp á, menn ráði ekki við ákveðna hluti. Það er allt saman nokkuð sem menn þurfa að skoða, sérstaklega þeir sem ætla að fara að búa til aðstöðu í landi, þeir þurfa að átta sig á þessari áhættu og ekki hætta of miklu af einkafé sínu.

Við Íslendingar búum svo vel, eins og ég hef margoft nefnt, að við framleiðum mat og orku eins og engin önnur þjóð í heiminum. Þá á ég við fiskinn og álið. Álið er ekkert annað en útflutningur á orku og álverðið er mjög tengt orkuverði í heiminum. Nú erum við að fara nýja braut sem er olíuleit sem er þá enn einn þátturinn í að finna orku. Þá verðum við komin með þrjár tegundir af orku: fallvatnið, varmaorkuna úr hverunum og síðan olíuorku. Hún er hins vegar meira en það, hún er líka lífrænt efni sem verður sífellt sjaldgæfara á jörðunni. Ég hugsa að einhvern tímann í framtíðinni muni mannkynið segja: Hvers vegna í ósköpunum voru menn að brenna þessi lífrænu efni? Þau eru ekkert mjög algeng í náttúrunni og það má vel vera að einhvern tímann seinna muni menn nota olíuna miklu meira til lífrænnar framleiðslu.

Ég kom aðallega upp, frú forseti, til að ræða um umhverfisáhrifin, almennt um umhverfismál á Íslandi og hvernig þau eru rædd. Lengi vel sögðu menn að hér mætti ekki reisa álver vegna þess að það mengaði svo mikið. Það er alveg fráleitt að tala svona. Þá voru menn væntanlega að tala um koldíoxíðlosun en hún er ekkert bundin við Ísland; hún er um allan heim. Það sem menn ættu þá að segja er að mannkynið ætti að hætta að nota ál. Við ættum að hætta að framleiða ál. Það væri miklu skynsamlegra því að þá mundu menn ekki byggja álver í Kína þar sem rafmagnið er framleitt með brennslu kola. Þá mundu menn heldur ekki reisa álver í Sádi-Arabíu þar sem gas er brennt, sem reyndar fer út í loftið núna en mætti örugglega nýta öðruvísi. Það kemur í ljós þegar maður skoðar allan ferilinn hvað kostar mikla mengun að framleiða eitt kíló af áli. Mig minnir að það sé 11 sinnum meiri mengun þegar það er framleitt annars staðar en á Íslandi. Þeir sem væru virkilega trúaðir á hitnun jarðar, sem ég er nú farinn að hallast að, þ.e. að hún sé að hitna, ættu í rauninni að krefjast þess að hér yrði virkjað sem allra mest og framleitt sem allra mest ál.

En þá kemur annar þáttur, frú forseti, sem ég hef efasemdir um. Ég tel að álið sé orðið það stór hluti af efnahagslífi Íslands að það sé ekki endilega skynsamlegt að bæta við. Álútflutningurinn er orðinn töluvert meiri en sjávarútvegurinn og þá er komin ákveðin áhætta; hvað gerist til dæmis ef menn finna ódýrari aðferðir til að vinna ál, ekki með rafgreiningu? Það er örugglega einhver að leita að því úti í heimi því að rafgreiningin er mjög dýr og ál er mjög algengt frumefni í jarðskorpunni. Ef tekst að finna aðrar einfaldari aðferðir til að vinna álið úr jarðskorpunni en rafgreiningu, jafnvel umhverfisvænni, þarf að loka öllum álverum í heiminum. Hvað gera Íslendingar þá við alla orkuna? Eru menn undir það búnir? Ég held ekki. Ég held að enginn hafi pælt í því.

Síðan er annað, olía brennur ekki nema það sé búið að ná í hana. Aðalmengunin á jörðinni er brennsla á kolum og olíu. Þess vegna ættu umhverfisverndarsinnar ekki að vera á móti álverum endilega, heldur olíuvinnslu. Þeir ættu að segja: Við skulum ekki vinna þessa olíu því að hún verður brennd. Því minni olía sem finnst á jörðinni, þeim mun hærra verður verðið og þeim mun minna verður brennt af henni. Þá fara menn kannski líka að horfa til þess, eins og ég gat um, að þetta er mjög merkilegt lífefni sem við getum notað. Umhverfisverndarsinnar ættu virkilega að rísa upp á afturlappirnar og segja: Við viljum ekki láta bora eftir olíu á þessu svæði.

Þetta hélt ég að yrði aðalmálið. Nú vil ég ekki láta setja mig í þann hóp. Ég vil endilega bæði virkja og nota orkuna sem Íslendingar eiga, bæði varmaorkuna og alveg sérstaklega fallorkuna. Ég uppgötvaði það fyrir löngu, vissi það meira að segja sem barn, að hvert tonn af vatni sem færi niður fossana yrði aldrei notað aftur ef það færi þá óvirkjað niður. Þetta er auðlind sem er virkilega að fara frá okkur.

Það er dálítið öðruvísi með varmaorkuna. Menn telja að sú orka sé endanleg, a.m.k. þurfi menn að gæta sín mjög vel. Og olían kemur náttúrlega aldrei aftur. Nú hélt ég að umhverfisverndarsinnar sem eru á móti álverum og á móti þessu og hinu mundu rísa upp á afturlappirnar og segja: Nei, þetta skulum við ekki gera af því að þetta veldur brennslu á kolefni um allan heim. Ef olía finnst gæti það jafnvel lækkað verðið eilítið, aukið þannig eftirspurnina sem því næmi. Þetta veldur líka hitnun jarðar. Ég átti von á umræðu um það. En, nei, það heyrist ekki og ég hef ekki heyrt það heldur í nefndastarfi þingsins. Hér situr enginn og enginn hefur talað um þetta hingað til þannig að þetta fer bara ljúflega í gegn.

Mér finnst vanta þennan flöt og svo líka það að svona vinnslu fylgir heilmikil umhverfisáhætta. Við vorum illilega minnt á það í borholunni sem fór illa í Mexíkóflóa að það geta orðið óheyrileg umhverfisspjöll af þessu. Ég átti von á því að nú yrðu mótmæli úti á Austurvelli þegar menn ætla að fara að bora þarna á gífurlegu dýpi í gegnum óþekkt jarðlög, að segja má, og nálægt norðurskautinu þar sem efnahvörfin ganga miklu hægar en við miðbaug. Olían er miklu lengur í náttúrunni þarna en suður við miðbaug.

Ég átti sem sagt von á því en það hefur ekki heyrst. Ég átta mig alveg á þessum þáttum öllum og veit að það er áhætta af þessu en ég er tilbúinn að taka þá áhættu. Auðvitað eiga menn að gera kröfu til þess að ýtrasta aðhalds sé gætt og menn passi upp á að ekkert slys verði. Ég er til í að breyta Íslandi í olíuframleiðsluríki þrátt fyrir að ég viti af hitnun jarðar. Ég vonast til þess að menn taki bráðum upp verslun með kolefnismengun, þ.e. mengunarkvóta, sem gæti orðið Íslandi óskaplega mikil uppspretta auðs því að við erum með svo hreina orku. Ef svona kolefniskvótar verða settir á annars staðar og menn þurfa að borga fyrir þá eftir því sem menn brenna og mynda koldíoxíð og aðra mengun mun væntanlega verð frá kolaraforkuverum og olíu- og gasraforkuverum hækka mikið en framleiðsluverðið hjá okkur hækkar ekki, þ.e. við gætum hækkað það af því að heimsmarkaðsverð á raforku hækkar en öll lánin og annað sem orkuverin okkar nota mundu ekki hækka. Þetta yrði bara hreinn gróði fyrir Ísland. Landsvirkjun, Rarik og Orkuveita Reykjavíkur gætu orðið verulega arðbær ef menn tækju upp verslun með kolefniskvóta. Því miður hafa Íslendingar, þ.e. umhverfisráðuneytið, ekki enn komið versluninni á hérna þó að það hafi fyrir löngu verið samþykkt.