139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í upphafi vildi ég aðeins taka upp boltann þar sem hv. síðasti ræðumaður skildi við hann í umræðunni eða eiginlega í svörum við orðum hv. formanns umhverfisnefndar varðandi það að reglan um actio popularis í þessu tilviki gengi út á að auka frelsi einstaklingsins, rétt einstaklingsins.

Þegar við tölum annars vegar um rekstur mála gagnvart stjórnvöldum, eins og í þessu tilviki kærur vegna tiltekinna ákvarðana, og hins vegar að reka mál fyrir dómstólum er það auðvitað grundvallarregla að þeir eigi aðild sem einhverra hagsmuna hafa að gæta varðandi úrlausn máls. Það getur stundum verið vandasamt að greina hverjir slíkir hagsmunir eru og um það er oft tekist á bæði fyrir dómstólum og álitamál koma upp gagnvart stjórnvöldum en þó eru bæði í réttarfari og stjórnsýsluframkvæmd komin ákveðin fordæmi og leiðbeiningar sem hægt er að fylgja í því sambandi. Almennt talað valda því spurningar um lögvarða hagsmuni af úrlausn máls ekki miklum vandræðum og alla vega á vettvangi stjórnsýslu og réttarfars eru þekktar aðferðir til þess að leita að einhverri niðurstöðu í því.

Allir eru sammála um að þeir sem eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirra mála sem falla undir gildissvið Árósasamningsins eigi að eiga kærurétt. Ekki er heldur ágreiningur um það, hvorki hér í þingsölum né annars staðar, að samtök einstaklinga, áhugamannafélög eða frjáls félagasamtök, t.d. á sviði umhverfisverndar, náttúruverndar, útivistar eða slík samtök, jafnvel önnur hagsmunasamtök, geti átt aðild að málum fyrir stjórnsýslu og dómstólum þegar um slík álitamál er að ræða sem Árósasamningurinn tekur til. Það er ekki ágreiningur um þetta. Eins og kemur fram í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar eru kröfurnar sem gerðar eru til slíkra samtaka formkröfur og þær eru ekkert mjög þungbærar, þær gera ekki ráð fyrir neitt óheyrilegum félagafjölda, þær gera ekki ráð fyrir neitt óheyrilegri skriffinnsku heldur fela það aðeins í sér að komi menn fram fyrir hönd einhverra samtaka af þessu tagi þurfi þeir að sýna fram á að um raunveruleg samtök sé að ræða sem hafi einhverja lágmarksstarfsemi. Það eru ekki þungbærar kröfur. Um þetta er sem sagt samkomulag að þeir sem eiga lögvarða hagsmuni geti átt aðild að svona málum og að samtök einstaklinga sem láta sig mál varða, umhverfismál, náttúruverndarmál eða hvaðeina, geti komið að málum.

Álitamálið snýst um það hvort einstaklingar sem ekki eiga samkvæmt lögum og hefðum lögvarða hagsmuni af úrlausn einhvers tiltekins mál eigi að geta átt aðild að kærumálum fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og þar með eftir atvikum aðild að dómsmálum sem lúta að hinni formlegu málsmeðferð fyrir slíku úrskurðarapparati.

Þá takast auðvitað á þessi sjónarmið: Á hver sem er að geta kært hvað sem er eða því sem næst eða á að setja því einhver mörk? Þar sem hv. formaður umhverfisnefndar talaði áðan um skoðanafrelsi og frelsi til að láta sjónarmið í ljós o.s.frv. þá er það allt gott og gilt. Allir geta haft skoðun á framkvæmdum, allir geta látið þær skoðanir í ljós á opinberum vettvangi eða annars staðar. En það er ekki endilega sjálfgefið að jafnvel þó að menn geti haft skoðanir á einhverju eigi þeir að eiga rétt á málsaðild fyrir opinberu stjórnvaldi.

Fyrir því að takmarka slíka málsaðild eru kannski fyrst og fremst ákveðin hagkvæmnisrök. Það er auðvitað spurningin um að málafjöldi sé viðráðanlegur hjá þeim úrskurðaraðilum sem við þessi mál eiga að fást. Hættan er auðvitað sú, eins og raunar er vakin athygli á í greinargerð með frumvarpinu, að það verði um að ræða aukningu og jafnvel mikla aukningu á kærum í ákveðnum málaflokkum. Það er raunveruleg hætta. Frumvarpshöfundar gera ráð fyrir að fjölgun geti orðið 30%. Ég er ekki viss um að sú tala sé endilega réttari en hver önnur en ég held að við getum gert ráð fyrir því að ef skilyrði fyrir aðild að kærumálum eru rýmkuð til muna muni kærunum fjölga, jafnvel kærum út af sömu eða svipuðum atriðum.

Við í minni hluta umhverfisnefndar vekjum athygli á því að vandinn við það felst í því að stjórnvaldið sem tekur við kærunum, úrskurðarnefndin, þarf auðvitað að meðhöndla allar kærur sem henni berast með málefnalegum hætti í samræmi við gildandi reglur og hefðir á sviði stjórnsýsluréttar. Hún getur ekki leyft sér að horfa á pappírsbunkann á borðinu hjá sér og segja: Þetta er eiginlega allt meira og minna það sama, við skulum ekkert fara sérstaklega yfir þetta. Hún þarf alla vega að fara í gegnum öll gögnin, öll bréfin, allar kærurnar, öll erindin og taka málefnalega afstöðu til þess hvort um sé að ræða sambærileg mál sem eigi að fá sambærilega úrlausn eða tilefnislausar kærur. Stjórnvaldið þarf að fara í gegnum þetta. Og ef kærur vegna einhverra tiltekinna ákvarðana eru ekki bara einhverjir tugir heldur einhver hundruð, jafnvel þúsundir — það eru dæmi um að borist hafi mörg þúsund athugasemdir frá einstaklingum vegna tiltekinna ákvarðana á sviði umhverfismála nýlega. Þetta eru því ekki óraunhæfar vangaveltur. Sex þúsund athugasemdir gætu eftir því sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir orðið sex þúsund kærur, ekkert endilega allar samhljóða heldur mismunandi atriði tekin fyrir, mismunandi orðalag, mismunandi útfærsla, og það getur valdið úrskurðarnefnd töluverðum vandræðum að fara í gegnum þetta og afgreiða allar slíkar kærur með málefnalegum og vönduðum hætti.

Þetta er grundvallarástæðan fyrir því að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd höfum lýst andstöðu við að ganga svo langt sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Við höfum áhyggjur af því, raunverulegar áhyggjur, að þessi almenna kæruheimild muni auka málafjölda, kærufjölda. Og þegar ég tala um kærufjölda er ég að tala um fjölda kæra jafnvel út af sama málinu þannig að við reynum að greina einhvern veginn þar á milli. Við höfum áhyggjur af því að þetta muni og geti valdið vandræðum í starfi úrskurðarnefndarinnar, því að við erum alveg sammála meiri hlutanum um að það er gríðarlega mikilvægt að þeir sem eiga eitthvað undir niðurstöðum úrskurðarnefndar fái úrlausn sinna mála hratt og örugglega og án tafa. Við tökum undir það sem segir í nefndaráliti meiri hlutans að því leyti. Það er mjög mikilvægt að þeir sem t.d. hafa hagsmuni af framkvæmdum eða jafnvel þeir sem eru andsnúnir framkvæmdum fái niðurstöðu í ágreiningsmál af því tagi hratt og örugglega, helst sem fyrst í ferlinu. En við teljum að sú breyting sem frumvarpið felur í sér varðandi innleiðingu actio popularis-reglunnar gangi einmitt gegn þessum markmiðum. Við teljum að hættan sé með öðrum orðum sú að það að taka upp actio popularis í þessu dæmi geti leitt til meiri tafa á málsmeðferð, meira umfangi starfs þessarar nefndar, muni taka mikinn kraft frá henni, dreifa kröftum hennar þannig að hún lendi í meiri vinnu án þess að hafa endilega tækifæri til þess að fara betur yfir þau mál sem hún á að taka afstöðu til. Við teljum að þetta muni ekki leiða til vandaðri málsmeðferðar. Við teljum þvert á móti að hættan sé sú að mikill kærufjöldi, kæruflóð eins og við nefnum í nefndarálitinu, geti leitt til þess að vinnubrögðin verði verri en áður. Við höfum áhyggjur af þessu.

Síðan er líka alltaf spurning, svo ég komi aftur að því sem hv. formaður umhverfisnefndar nefndi hér áður, hversu langt eigi að ganga í því að veita einum einstaklingi rétt til að kæra framkvæmd á vegum annars einstaklings til opinbers stjórnvalds. Hversu langt á að ganga í því? Eiga allir alltaf að hafa rétt til að kæra alla á hvaða sviði sem er? Ég er ekki alveg viss um það. Ég held að það þurfi að vera einhver mörk. Mér finnst ekki ósanngjarnt að binda mörk, þ.e. að takmarka aðild að kærumálum á sviði þessara mála, umhverfis- og auðlindamála, við annars vegar þá sem eiga beina lögvarða hagsmuni, einhverja áþreifanlega hagsmuni sem teljast lögvarðir miðað við okkar reglur og venjur, og hins vegar við samtök sem einstaklingar standa að annaðhvort til að sinna umhverfismálum, náttúruverndarmálum, útivistarmálum eða einhverjum öðrum málum sem snerta þetta svið. Út af fyrir sig er ekkert sem útilokar að menn geti stofnað slík samtök vilji þeir ná vopnum sínum í baráttu gegn einhverri tiltekinni framkvæmd eða einhverju slíku. Segjum svo að hópur umhverfisverndarsinna telji að þau samtök sem mest láta að sér kveða á því sviði, Náttúruverndarsamtök Íslands eða Landvernd eða önnur slík samtök, sinni ekki sínu hlutverki, standi sig ekki í stykkinu, og einhverjir umhverfisverndarsinnar telji nauðsynlegt að bæta um betur, gera betur en hin hefðbundnu samtök á þessu sviði gera, þá er ekkert í núgildandi rétti sem kemur í veg fyrir að menn stofni slík samtök og þurfa ekkert voðalega mikið til, þurfa ekki mjög mikið til. Ég held því að sú breyting sem hér er verið að leggja til sé í rauninni tilefnislaus og geti haft slæmar afleiðingar eins og rakið er í nefndarálitinu.

Ég ætlaði að lokum, hæstv. forseti, að nefna aðeins nokkra punkta sem gera það að verkum að við ættum að fara varlega í þessum efnum, nokkur atriði sem almennt séð ættu að verða til þess að þingmenn stígi varlega til jarðar áður en ákvörðun af þessu tagi er tekin, ákvörðun um að taka upp actio popularis á þessu sviði.

Í fyrsta lagi er um að ræða róttæka lagabreytingu. Undir öllum kringumstæðum er ég þeirrar skoðunar að þegar lögum er breytt með róttækum hætti, þegar um verulega breytingu á lögum er að ræða svo að við umorðum það, kalli það út af fyrir sig á meiri skoðun en ella. Mikil lagabreyting, róttæk lagabreyting kallar á meiri skoðun máls en lítil eða léttvæg lagabreyting.

Í annan stað er alveg rétt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að tillagan sem felst í frumvarpinu gengur lengra en nauðsynlegt er samkvæmt Árósasamningnum, þ.e. til að uppfylla skilyrði Árósasamningsins er ekki nauðsynlegt að samþykkja frumvarpið eins og það er. Frumvarpið gengur lengra. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur Árósasamningurinn fólgnar í sér leiðbeiningarreglur og lágmarksreglur og aðildarríkin hafa svigrúm til þess að útfæra þau atriði með mismunandi hætti. En við skulum ekki afgreiða þetta mál í þeirri trú að það sé nauðsynlegt að samþykkja þetta frumvarp eins og það er til þess að fullgilda Árósasáttmálann. Nei, það væri hægt að gera það með öðrum hætti. Hér er verið að ganga lengra en nauðsynlegt er miðað við ákvæði samningsins.

Í þriðja lagi er rétt að nefna að tillagan í frumvarpinu felur í sér róttækari leið en flest önnur aðildarríki hafa farið. Með öðrum orðum, í þessu frumvarpi er verið að velja útfærslu á ákvæðum Árósasamningsins sem gengur lengra en algengast er í aðildarríkjum samningsins.

Við höfum átt innan nefndarinnar og raunar hér aðeins fyrr í dag nokkra umræðu um hvernig samanburðurinn við önnur lönd er nákvæmlega en ég held að það ætti ekki að vera umdeilt og ég held að hv. formaður umhverfisnefndar hljóti að geta tekið undir það að sú leið sem felst í frumvarpinu er róttæk miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur, aðildarríkjum Árósasamningsins. Og það að hér er valin róttækari leið, leið sem gengur lengra en í mörgum nágrannalöndum okkar, á auðvitað að valda því að þingmenn hugsi sig sérstaklega vel um og skoði hvort ástæða sé til að fara slíka leið.

Í þessu sambandi er auðvitað, eins og fram kom í umræðum og andsvörum fyrr í dag, sérstaklega ástæða til að horfa til næstu nágranna okkar, Norðurlandanna Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar, sem eru þau lönd sem búa við líkasta lagahefð og réttarumhverfi og við Íslendingar. Og við ættum að spyrja okkur sérstaklega, burt séð frá öllum hinum 38 aðildarríkjum Árósasamningsins: Af hverju hafa Norðmenn ekki gengið jafnlangt og gert er í þessu frumvarpi? Af hverju hafa Svíar ekki gengið jafnlangt og gert er í þessu frumvarpi? Af hverju hafa Danir ekki gengið jafnlangt og gert er í þessu frumvarpi? Við verðum bara að spyrja okkur: Af hverju hafa þessi lönd sem, eins og hv. formaður umhverfisnefndar vakti athygli á í umræðum um annað mál hér í dag, hafa verið í fararbroddi í heiminum á sviði umhverfismála ekki gengið jafnlangt og gert er í þessu frumvarpi? Við þurfum að spyrja okkur að því áður en við samþykkjum þetta mál með þessum hætti.

Í fimmta lagi vildi ég nefna það líka að sú tillaga sem í frumvarpinu felst varðandi actio popularis felur í sér frávik frá því meginfyrirkomulagi í íslenskum rétti að aðilar að stjórnsýslumálum og dómsmálum eigi lögvarða hagsmuni í tengslum við málin. Það eru dæmi í íslenskri löggjöf um actio popularis, menn hafa sérstaklega vísað til kosningalaga í því sambandi þar sem allir eiga kærurétt óháð því hvort þeir hafi einhverja persónulega eða einstaklingsbundna hagsmuni af úrlausn máls. En dæmin um actio popularis í íslenskum rétti eru bara ekkert miklu fleiri. Sama á raunar við um nágrannalöndin. Þannig að þótt undir það skuli tekið að ekki sé með neinum hætti hægt að halda því fram að Alþingi Íslendinga sé óheimilt að koma á actio popularis á þessu sviði hljótum við að spyrja spurninga þegar við veljum að fara leið sem fer í bága við það sem er meginregla eða algengasta fyrirkomulagið í þessum efnum í íslenskum rétti og rétti nágrannaríkjanna.

Öll þessi atriði kalla að mínu mati á að við þingmenn sýnum varkárni þegar kemur að þessari tilteknu breytingu. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu fyrir mitt leyti og við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd að það sé ekki rétt að ganga jafnlangt og gert er að þessu leyti í frumvarpinu. Það er rétt sem hv. formaður umhverfisnefndar segir að á endanum hlýtur niðurstaðan í þessu að byggjast á pólitísku mati, pólitískum skoðunum. Það er pólitísk ákvörðun að koma á actio popularis að þessu leyti en það er hins vegar ekki gott að komast að þeirri pólitísku ákvörðun nema menn séu búnir að fara vel í gegnum umræðuna um þetta og reyna (Forseti hringir.) eftir föngum að átta sig á afleiðingum breytingarinnar ef hún verður að veruleika.