139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hlý orð frá hv. þingmanni um þessar skattalækkanir. Um leið og ég móttek þau er það auðvitað fullkomið óraunsæi að Ísland, í þeirri gríðarlega erfiðu stöðu sem við höfum verið í efnahagslega, eigi val um það að hafa, bara svona almennt, lága skatta. Það er nú því miður ekki. Hér þarf að innheimta skatta til að rétta af hinn gríðarlega halla á ríkissjóði. Ég held raunar að þeir sem vel standa, þeir sem koma til að mynda út með miklar eignir úr hruninu, séu ekki að telja það jafnmikið eftir sér eins og sumir hv. þingmenn vilja vera láta að leggja sitt af mörkum á þessum erfiðu tímum. Ég held hins vegar að það skipti máli að skattheimtan sé sanngjörn. Þegar sóknarfæri eru til að efla starfsemi með því að lækka þá á tilteknum sviðum eigum við að nýta það eins og í þessu dæmi með rafrænu starfsemina, eins og í átakinu Allir vinna með viðhald og þess háttar hluti.

Varðandi spurningar hv. þingmanns, um vinnu í tengslum við húsgögn til dæmis, þá var það rætt þegar menn fóru í að endurgreiða virðisaukaskatt af viðhaldi. Þar var líka rætt um það hvort það ætti að ná til þeirrar vinnu sem fram fer á verkstæðum en ekki bara á byggingarstað. Þá var ákveðið að ganga ekki svo langt. Ég held að það geti alveg verið ástæða til að fara yfir það hvort ástæða sé til að ganga skrefinu lengra.

Það hafa líka komið fram athyglisverðar hugmyndir um það að gera eitthvað svipað í bílgreininni, í viðhaldi á bílum. Menn hafa talið að þar væri nokkur brotalöm í skattheimtunni svo að hóflega sé til orða tekið. Ég held að það sé eitthvað (Forseti hringir.) sem við þurfum að skoða. Við stóðum að mjög jákvæðum skattbreytingum, (Forseti hringir.) til að efla og örva hér bílainnflutning um áramótin og getum haldið þeirri góðu vinnu áfram.