139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki verið meira sammála þingmanninum Kristjáni Þór Júlíussyni um að hér sé verið drepa allt í dróma. Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil kratavæðing í stjórnsýslunni. Hér er sífellt verið að stofna til nýrra nefnda, hér er verið að stofna eftirlitsstofnanir, hér er verið að eyða gríðarlegu fjármagni frá íslenska ríkinu í akkúrat þessa þætti og hver er árangurinn? Við skulum til dæmis líta til Umhverfisstofnunar, 85 manna stofnunar, en hún brást alveg eftirlitshlutverki sínu á liðnum vetri. Ef verið er að setja eitthvað svona á stofn, hvort sem það eru nefndir, opinberar stofnanir eða eftirlitsstofnanir, verða viðkomandi aðilar líka að sinna starfi sínu og sínu lögbundna hlutverki ekki síst.

Þar sem þingmaðurinn fór aðeins yfir áhyggjur manna af því að þegar stjórnkerfið verður orðið svona flókið verði komnir svo margir þröskuldar fyrir framkvæmdir, eins og t.d. í atvinnumálum — ég er að tala um virkjunarmál, ég er að tala um jarðboranir og annað og umhverfismat, allt eru þetta reglur sem Íslendingar hafa þurft að sækja til Evrópusambandsins af því að umhverfismál falla undir EES-réttinn — þá er það svo að hér er að verða verra og verra að hrinda framkvæmdum af stað. Ríkisstjórnin hefur ekki verið áfjáð í að koma atvinnulífi af stað eða hleypa krafti í atvinnuuppbyggingu. Og þetta mál er akkúrat rakið dæmi um það sem gerist, það er verið að flækja málin svo mikið og setja svo marga þröskulda og kæruleiðir að það er nánast ómögulegt að nokkuð fari af stað. Ég tala nú ekki um þegar útlendingar eru farnir að skipta sér af innanríkismálum með afgerandi hætti með þeirri kæruaðild sem gefinn er kostur á í þessu frumvarpi, og þá bið ég nú guð um að blessa Ísland þegar þeir fara að drekkja nefndinni líka (Forseti hringir.) og skipta sér af því hvar er virkjað og hvar ekki.