139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Töluvert hefur verið í fréttum í allt sumar sá mikli vandi sem steðjar að á evrusvæðinu. Það eru krísufundir í hverri einustu viku, evran rær lífróður jafnvel þó að hæstv. utanríkisráðherra vilji trúa öðru. Allir gera sér grein fyrir þessu, enda meiri hluti þjóðarinnar andsnúinn ESB-aðild. Jafnframt vill meiri hluti þjóðarinnar draga ESB-umsóknina til baka. (VigH: Rétt.) En á meðan þetta er í gangi virðist þetta allt öðruvísi hér. Samfylkingin rær líka lífróður fyrir lífi sínu vegna þess að þetta er eina málið sem flokkurinn hefur.

Mig langaði að brydda upp á nokkru við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem er varaformaður utanríkismálanefndar. Fram kom 5. júlí sl. ósk um að fram færu opnir fundir í utanríkismálanefnd með reglulegum hætti til að ræða meðal annars stöðuna í aðildarviðræðunum sem hefur verið mikið til umræðu síðustu daga í fjölmiðlum. Í annan stað vil ég ræða þann mikla vanda sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir og áhrif þess á aðildarumsóknina. Síðan þessi beiðni kom fram eru liðnir tveir mánuðir. Beiðnin hljóðaði upp á að fram færu mánaðarlegir opnir fundir í utanríkismálanefnd þar sem þjóðin gæti fylgst með því sem er að gerast í þessu ferli. Af hverju hefur hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og stjórnarmeirihlutinn sem fer fyrir þessari ESB-umsókn ekki orðið við þessari beiðni? Af hverju fáum við ekki opna nefndarfundi? Af hverju stafar þessi leynd? Er þess að vænta á næstunni að fundum verði sjónvarpað með opnum hætti líkt og óskað hefur verið eftir?