139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Margar stórar spurningar lágu eftir hv. þingmann og ég þakka honum fyrir þær. Fyrir það fyrsta gefur það augaleið að öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar ber að vinna fortakslaust eftir ályktun Alþingis. (Gripið fram í.) Annað er óhugsandi og það má vísa til þess að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bar það fyrir sig í hvalveiðimálinu á dögunum að hann ynni eftir ályktun Alþingis frá 1999 og að hann gæti ekki annað af því að Alþingi hefði ályktað um það. Það sama hlýtur að eiga við í þessu máli. Báðum ráðherrunum, hvort sem það er hæstv. utanríkisráðherra eða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ber að vinna eftir afdráttarlausri ályktun frá Alþingi um umsókn Íslands að Evrópusambandinu og báðir munu þeir gera það.

Hitt er rétt að það var stefnt að því að opna erfiðu kaflana, land og sjó, myntmálin og annað, sem allra fyrst. Eftir því kölluðu aðrir ráðherrar Vinstri grænna og Samfylkingar úr ríkisstjórn. Það tafðist út af tregðu hjá umræddu ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar til að setja fólk til þeirra verka. Það hlýtur þó að skýrast núna og greiðast úr því og hæstv. utanríkisráðherra mun mæta til utanríkismálanefndar kl. 13 í dag og fara yfir það mál.

Því ber að fagna að rýniskýrsla um landbúnaðarmálin og samningaviðræður Íslands við Evrópusambandið er sérstaklega jákvæð fyrir okkur. Þar eru bein fyrirmæli pólsku forustunnar sem talar fyrir hönd allra 27 ríkjanna um að leita sérlausna fyrir Ísland í landbúnaðarmálum, sérstaklega með tilliti til harðrar veðráttu, sérstöðu Íslands og strjálbýlis á öllum sviðum. Þetta er ítrekað og undirstrikað í bréfinu frá Pólverjunum og það er ekki hægt að túlka það með neinum öðrum hætti en sem skýr fyrirmæli til samninganefndarinnar um að leita sérlausna fyrir Ísland og (Forseti hringir.) taka tillit til ýtrustu hagsmuna Íslands í landbúnaðarmálum í þessu samningaferli.