139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Grundvallaratriðið er kannski það að ákvörðunin um að aflétta höftunum, eftir að leggja niður fyrir sér markmiðið með því að gera það, gerir það að verkum að þegar við afléttum þeim verður það gleðistund þó að við sjáum fram á hugsanlega tímabundna erfiðleika. Ef við missum ekki sjónar á lokamarkmiðinu sem er frjálst Ísland og betri lífsgæði fyrir okkur öll hverfur ekki vonin og þá eru allir meðvitaðir um að fram undan séu tímabundnir erfiðleikar, hugsanlega verði þeir miklir, hugsanlega verði höggið eitthvað minna, við vonum það, en þá eru allir tilbúnir í slaginn. Þetta er það sem þarf að gera.

Ég heyri að við, ég og hinn ágæti þingmaður Pétur H. Blöndal, erum sammála um þetta. Ég held að það sé ekkert annað að gera en að drífa sig í að móta þessa framtíðarsýn. Það væri best ef þingflokkar á Alþingi gætu tekið sig saman um að gera það. Ég sé hins vegar ekki merki um áhuga á því af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og hef orðið fyrir vissum vonbrigðum með að Vinstri grænir skuli láta teyma sig algjörlega í áttina að Evrópusambandinu á þeim hæpnu rökum að eina leiðin til þess að losna undan höftunum sé að taka upp evru. (PHB: Ekki gefa upp vonina.) Ég ætla að taka þessu ákalli hv. þm. Péturs H. Blöndals um að missa ekki vonina en kalla enn og aftur eftir því að Vinstri grænir komi í þingsalinn og lýsi því fyrir okkur með hvaða hætti þeir sjái þetta fyrir sér.