139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Jú, ég svara hv. þm. Magnúsi Orra Schram því að ég tel réttast og farsælast að leita lausna í þessu máli. Það á að vera almenn regla, og allar þjóðir eiga að vita það, að landið sé opið fyrir fjárfestingum. Það er hin algilda regla. Ákveðinn rammi og lög gilda í landinu sem menn fara eðlilega eftir. Ef menn fara eftir þeim lögum á ekki að skipta máli hvort menn koma frá Evrópusambandinu, Kína, Japan eða Indlandi. Það á ekki að skipta neinu máli.

Það sem vekur mig hins vegar til umhugsunar er að það virðist skipta máli hvaða ráðherrar eru í ríkisstjórn hverju sinni, hvaða flokki þeir tilheyra. Þá virðist vera hipsumhaps hvernig eigi að afgreiða þetta. Það er umhugsunarefnið í þessu máli. Ég er innilega sammála hv. þingmanni og ég greini það að hann vill hafa landið opið og frjálst. Ég trúi því, eins og ég tel að margir hér inni geri, að opið hagkerfi sé betra og farsælla fyrir borgaraleg og félagsleg mannréttindi og efnahagslegar framfarir en lokað hagkerfi. Ég trúi því, og ég trúi ekki öðru en að fleiri hér inni séu sammála mér í því, alveg eins og að tiltölulega hindrunarlaus samskipti og viðskipti milli þjóða leiða frekar til farsældar fyrir þjóðina en girðingar og múrar. Við höfum haft vonda reynslu af girðingum og múrum fram til þessa.

Ég tel eindregið að við eigum að leita lausna í þessu máli. Við þurfum að fara að skapa störf, við þurfum að skapa verðmæti og það gerist ekki án fjárfestinga, innlendra sem erlendra. Það þýðir ekki að hafa þetta yfirbragð sem ríkisstjórnin hefur með forsætisráðherra sem segir: Við þurfum hugsanlega að þjóðnýta ákveðnar eignir. Landbúnaðarráðherra vill ekki einu sinni tala við ESB þótt ESB viti að leita þurfi sérlausna í landbúnaði fyrir Íslendinga. Síðan erum við með innanríkisráðherra sem segir: Lok, lok og læs á Kínverja. Mér finnst þetta ekki boðlegt. Mér finnst þetta ekki rétt yfirbragð til að segja: Komið og fjárfestið á Íslandi. Við eigum að segja: Landið er opið fyrir fjárfestingum. Það er ákveðinn (Forseti hringir.) rammi. Gjörið svo vel og farið eftir honum. (RM: Hefur þú rætt þetta við formann Sjálfstæðisflokksins?) (Gripið fram í.)