139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

Landhelgisgæslan -- uppbygging á Grímsstöðum á Fjöllum o.fl.

[11:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan um Grímsstaði á Fjöllum og hugsanleg kaup kínversks auðjöfurs á þeirri landareign hefur mér fundist vera á miklum villigötum á undanförnum dögum. Í raun og veru snýst málið ekki um þetta einstaka tilvik heldur hvort við erum fylgjandi erlendri fjárfestingu eður ei í íslensku atvinnulífi. Ég er almennt talað fylgjandi erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi með ákveðnum undantekningum. Á þessum tímapunkti þurfum við hins vegar að fá svarað ákveðnum lagalegum spurningum í sambandi við þetta mál, eins og spurningunni um hvort þessi tiltekna fjárfesting sé í samræmi við þau lög sem gilda um fjárfestingar útlendinga hér á landi.

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, sem er mjög kunnugur þessu máli, fjallaði um það í mjög athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann vekur athygli á ýmsum þáttum sem ég held að þurfi að rata inn í þessa umræðu. Í fyrsta lagi er ákvæði í lögum um erlenda fjárfestingu sem kveður á um bann við fjárfestingu erlendra ríkja. Hann vekur athygli á því að þessi spurning hljóti að koma upp varðandi þessa tilteknu fjárfestingu Kínverjans hér á landi vegna samsetningar kínversks þjóðfélags, eins og við þekkjum, þar sem blandast saman viðskipti og stjórnmál, stjórnsýsla og viðskipti. Við þurfum auðvitað að fá úr þessum málum skorið.

Í lögunum um erlenda fjárfestingu er gert ráð fyrir því að þetta mál sé á höndum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þarf nefnilega að svara spurningunum sem upp koma í þessu máli áður en hæstv. innanríkisráðherra getur kveðið upp úr um það.

Þegar niðurstaðan er komin varðandi lagaheimildir fjárfestingarinnar þá fyrst geta menn farið að velta fyrir sér hinum pólitísku spurningum. Okkur er öllum ljóst að í ríkisstjórninni er bullandi ágreiningur um þær pólitísku spurningar sem eru um þetta mál, eins og nánast öll önnur. (Forseti hringir.) Mér sýnist þetta mál vera komið í miklar ógöngur. Menn eru ekki farnir að huga að hinum lagalegu spurningum þegar þeir eru búnir að svara þeim pólitísku fyrir fram. VG er á móti, Samfylkingin með.