139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég held hins vegar að þetta séu ekki neinar vangaveltur um þá stöðu sem hæstv. ríkisstjórn er í.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða skoðanir hann hefur á því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra láti hafa það eftir sér, úr þessum ræðustóli, í blöðum og fjölmiðlum, að gjaldmiðill landsins sé ónýtur, að krónan sé ónýt. Hvað finnst honum um það að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mæli fyrir umræddu frumvarpi, um að reyna að afnema gjaldeyrishöftin á næstu fimm árum, með þeim fullyrðingum að krónan sé ónýt? Hvaða trúverðugleiki er á bak við það? Kannski endurspeglast sá trúverðugleiki í því að nánast enginn stjórnarliði hefur tekið þátt í umræðunni, eða örfáir. Er það trúverðugt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ætli að afnema gjaldeyrishöftin á fimm árum en haldi því fram á sama tíma að gjaldmiðillinn sé ónýtur?