139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hvatti stjórnarmeirihlutann til að koma til móts við óskir stjórnarandstöðunnar um að fram fari lagaleg og hagfræðileg úttekt á peningamálastefnunni. Ég er sammála nauðsyn slíkrar úttektar en ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að slík úttekt þurfi að fela í sér þrjú atriði. Í fyrsta lagi mat á markmiðum peningastefnunnar sem hefur breyst frá hruni í það að vera gengisstöðugleiki en var fyrir hrun verðstöðugleiki. En það er ekki mikill munur á þessum tveimur markmiðum vegna þess að gengið hefur mikil áhrif á verðbólguna þannig að um leið og gengið verður óstöðugt verður meiri verðbólga.

Í öðru lagi þarf þessi úttekt að leggja áherslu á eða skoða hvaða tæki Seðlabankanum beri að nota til að ná þeim markmiðum sem honum verða sett af þinginu, hvaða önnur tæki en vaxtabreytingar Seðlabankinn eigi að nota. Ber að nota tæki eins og t.d. skatta á útstreymi fjármagns og frystingu verðtryggingar?

Í þriðja lagi, hvaða kosti hefur það fyrir Ísland að taka upp nýjan gjaldmiðil?

Það eru sem sagt þessi þrjú atriði sem ég mundi gjarnan vilja að hv. þingmaður segði mér hvort hann væri sammála mér um að væru mikilvæg að sérfræðingar skoðuðu.