139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[11:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ofmælt að í frumvarpinu felist að leggja eigi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti niður og það verður eitthvað fyrir fæti í þeim efnum ef það á að gerast, því get ég lofað hv. þingmanni og treysti á stuðning hennar í þeim efnum. Ég teldi það afar óskynsamlegt enda tel ég það ekki vera í raun og veru á dagskrá, að minnsta kosti ekki hjá þeim sem átta sig á hinum íslenska raunveruleika í atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið á að sjálfsögðu að vera þar.

Ég lýsti því að ég styddi ekki frumvarpið þegar það var afgreitt úr ríkisstjórn og það kom fram. Málið fer til þingsins og það tekur ákvörðun um það. Ég á eftir að fara yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu og í meðförum þingsins en eins og kom fram í megindráttum frá ríkisstjórn þá er afstaða mín óbreytt til málsins. Þingið tekur sína lýðræðislegu afstöðu varðandi endanlega afgreiðslu þess. (Gripið fram í: Það hefur ekkert breyst …)