139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

málfrelsi þingmanna -- Magma-málið.

[11:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í þeim viðbrögðum, sérstaklega þingmanna Vinstri grænna, sem komið hafa fram hér í umræðu og fyrirspurnatíma um þetta Magma-mál sannast hið fornkveðna, að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það er alveg með ólíkindum að þurfa að hlusta á þann skæting sem þessir hv. þingmenn hafa séð sér leik á borði að sýna blaðamönnum úti í bæ. Mér finnst full ástæða fyrir forseta til að bregðast við þessu. Eins og fram hefur komið höfum við hv. þingmenn í iðnaðarnefnd, stjórnarandstöðuþingmenn, óskað eftir því að vegna þessara frétta verði hið fyrsta boðað til fundar í iðnaðarnefnd með fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytinu. Við erum að minnsta kosti þrír sem óskum eftir þessum fundi þannig að samkvæmt þingsköpum skal hann haldinn hið fyrsta. Ég efast ekki um að hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Kristján Möller, muni boða þennan fund. Ég (Forseti hringir.) hlýt að telja þetta merkilegar fréttir fyrir samfylkingarþingmenn sem eru áfram um uppbyggingu á atvinnulífi (Forseti hringir.) að komast að því að hér hefur ekki verið farið með rétt mál þegar (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra hefur tjáð sig um það. Það er greinilegt að hann hefur spilað allt öðruvísi (Forseti hringir.) en hann hefur haldið hér fram í ræðu og riti fram að þessu.