139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[15:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vissulega verið snúið að skýra orð, hvað þau þýða nákvæmlega. Ég ræddi það í morgun einhvers staðar að eitt sinn er ég var að leita að veiðistað sem heitir Foss sem er í á sem ég ætlaði að fara að veiða í, þá var ég búinn að ganga fram hjá honum nokkrum sinnum þegar ég fann skiltið, því að þetta var eitthvað sem ég mundi kalla litla flúð í mínu tungutaki þar sem vatnið rétt lak niður af svona 50 sentímetra háum steini.

Vatnsleg og vatnshlot, eins og hér er nefnt, eru orð sem þarfnast kannski aðeins dýpri hugsana og þekkingar. Ég strikaði undir orð vatnsleg þegar við vorum að vinna með frumvarpið því að það vakti athygli mína. Frú forseti. Samkvæmt skilgreiningum í frumvarpinu er vatnsleg „lægð í vatni, sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt að vatnsborðsstöðu við háflæði. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs.“ Ég held að þetta verði ekki miklu skýrara, frú forseti.