139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög viðamikið frumvarp. Við höfum haft fjölskipað stjórnvald sem er ríkisstjórnin og oft hefur maður á tilfinningunni að það séu 10 til 12 ríkisstjórnir í landinu, að því leyti er þetta frumvarp gott. En það eykur um leið vald forsætisráðherrans því að hann getur sagt einstökum ráðherrum upp og þeir vita það þannig að þeir munu hlýða í miklu meira mæli en hingað til. En ég sakna þess að hv. framsögumaður meiri hluta hafi ekki rætt um valdmörk Alþingis og framkvæmdarvaldsins varðandi samningu frumvarpa. Þetta frumvarp er samið í forsætisráðuneytinu, ekki á Alþingi.

Varðandi fjárlög, þar sem Alþingi grípur inn í einstakar framkvæmdir, og líka varðandi aðra aðila í þjóðfélaginu, eins og SA og ASÍ, aðila vinnumarkaðarins — þeir ráða miklu meira en ég tel eðlilegt. Þetta er ekkert rætt í frumvarpinu og hv. þingmaður hefur ekkert rætt það. Ég vildi gjarnan heyra hvernig honum finnist að frumvörp séu samþykkt á Alþingi sem samin eru í kjarasamningum.

(Forseti (ÁI): Forseti biður hv. þingmenn að hafa einn fund í salnum.)