139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef meira gaman af hv. þingmanni og meira yndi af honum þegar hann er raunverulegur en þegar hann er óraunverulegur og þakka honum fyrir að hafa brugðið sér í hið raunverulega hlutverk í þessu andsvari.

Já, það er auðvitað rétt. Það sem ég vek hins vegar athygli á er þetta: Gallinn hér undanfarna marga áratugi, þó einkum þau 18 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn var síðast við völd, var sá að valdmörk löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins voru ekki skýr. Þau voru með þeim hætti að framkvæmdarvaldið át sig meira og meira inn á svið löggjafarvaldsins. Þessi valdmörk fóru ekki eftir hinum formlegu valdskiptum þessara tveggja (Gripið fram í.) stofnana (Gripið fram í.) í ríkinu, heldur eftir raunpólitíkinni. Það sem við erum að gera er að setja framkvæmdarvaldinu sitt hlutverk og löggjafarvaldinu sitt. Með því erum við að styrkja hvort tveggja og þó einkum að vera landi og þjóð til gagns og framdráttar.