139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst margt í málflutningi hv. þm. vera á mörkum þess að vera boðlegt. Hv. þingmaður talar eins og hér eigi að fara að taka upp einhverja einræðisstjórnarhætti. Hér er talað um og notuð orðin, virðulegi forseti, eins og ríkisforsætisráðherra með aðstoðarmenn sér við hlið. Hvers lags málflutningur er þetta eiginlega? Þetta er varla boðlegt.

Hvað er verið að gera með þeim breytingum sem við erum að ræða? Það er verið að taka upp skilvirkari og markvissari stjórnarhætti, koma á meiri formfestu í Stjórnarráðinu og koma á reglum sem gera það að verkum að framkvæmdarvaldið hafi meira svigrúm til að skipuleggja sig til að geta sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem Alþingi felur framkvæmdarvaldinu. Þetta er nú allt og sumt. Við erum einnig að gera stjórnkerfið sveigjanlegra, við erum að taka upp — það hefur verið gert í minni tíð — ráðherranefndir og reglur fyrir ríkisstjórnina sem gera það að verkum að mál sem voru kannski ekki rædd áður í ríkisstjórn en skipta miklu máli um efnahag landsins og fleira, eru öll tekin upp í ríkisstjórn, m.a. er ráðherranefnd og allar hennar fundargerðir settar þar fram.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað meinar hún með því að ríkisbáknið hafi þanist út undir handleiðslu Samfylkingarinnar í rúm fjögur ár og því tímabært að endurskoða ráðuneytisskipan? Stofnunum hefur fækkað um 31 stofnun frá 2009. Í farvatninu er að fækka um 11 stofnanir í viðbót og frumvarp um það liggur fyrir Alþingi. Þegar það er komið til framkvæmda erum við að tala um 20% fækkun á stofnunum. Hv. þingmaður leyfir sér að segja að Samfylkingin sé að blása út ríkisbáknið. Með fækkun ráðuneyta var líka veruleg fækkun í yfirstjórn ráðuneyta, þar með taldir skrifstofustjórar, bílstjórar og fleira. (Forseti hringir.) Sparnaður í húsnæðiskostnaði o.s.frv.

Ég tel að ekki sé boðlegt að setja svona inn í nefndarálit sem er gert með þeim hætti að það stenst engan veginn sem hér er sagt.