139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisvert orðalag. Hv. þingmaður sagði okkur frá því að annar stjórnarflokkanna hefði haft almennan fyrirvara við heilt frumvarp um sjálft Stjórnarráð Íslands. Þá liggur það fyrir. Og í hverju var fyrirvarinn fólginn? Hann var fólginn í því að sitt sýndist hverjum um málið. Með öðrum orðum, það var ekki hægt að lesa annað út úr orðum hv. þingmanns en að mikill fyrirvari og miklar athugasemdir væru við ýmsar efnisgreinar frumvarpsins.

Ég spurði eftir því hvað gæfi okkur tilefni til að ætla að nú væri búið að aflétta þeim fyrirvara. Ég er engu nær, ekki frekar en aðrir sem hlustuðu, vegna þess að hv. þingmaður sagði líka frá því að að hennar mati lægi ekki fyrir á þessari stundu hvort þinglegur meiri hluti væri fyrir breytingartillögunum sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur fram.

Er það þá þannig að við erum að leggja af stað í einhverja skógarferð þar sem enginn veit í raun og veru hvernig frumvarpið á að líta út í lok dagsins? Og er þetta ekki dæmi um vond vinnubrögð þegar vélað er (Forseti hringir.) um mál af þessu tagi, um sjálft Stjórnarráðið, þegar allt er í fullkominni óvissu um hvernig málið á að líta út?