139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér byggir á samþykkt Alþingis frá sumrinu 2009 þegar Alþingi ákvað að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fara í viðræður við það. Þá var unnið ítarlegt álit af hálfu utanríkismálanefndar þar sem meginhagsmunum Íslands í málinu er lýst, þar á meðal í sjávarútvegsmálum og í landbúnaðarmálum sem hér eru sérstaklega til umfjöllunar.

Ég tel að staða málsins í dag eigi á engan hátt að koma mönnum á óvart. Það var að sjálfsögðu viðbúið vegna þess hvernig um hnútana er búið í nefndaráliti utanríkismálanefndar sem þingsályktunin byggir á og sem íslenskum stjórnvöldum er falið að fylgja í hvívetna.

Fram kom hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að á rýnifundi í janúar á þessu ári hafi verið lögð fram sérstök yfirlýsing af hálfu íslensku samninganefndarinnar. Ég fæ ekki betur séð en að í erindi Evrópusambandsins núna sé eingöngu verið að fara fram á staðfestingu á þeirri munnlegu yfirlýsingu. Evrópusambandið er ekki að fara fram á neitt annað en að hún sé staðfest.

Í umræðum um málið á undanförnum mánuðum og missirum hefur þeirri skoðun verið ítrekað haldið á lofti, meðal annars í þessum sal, að við værum í svokölluðu aðildarferli, að þess væri krafist að við innleiddum löggjöf Evrópusambandsins og stofnanastrúktúr áður en þjóðin tæki ákvörðun um það hvort hún vildi þarna inn eða ekki. Ég lít svo á að í skýrslu og svari Evrópusambandsins núna liggi algerlega fyrir að engar kröfur eru settar fram sem stangast á við meirihlutaálit utanríkismálanefndar nema síður sé. Því er ekkert annað að gera en halda áfram því ferli sem við erum í. Það hefur sýnt sig í skoðanakönnunum allt frá því að þessi ákvörðun var tekin, burt séð frá stuðningi eða ekki stuðningi við ESB-aðildina, að meiri hluti þjóðarinnar (Forseti hringir.) hefur allan tímann verið einhuga í því að halda þessu ferli áfram, (Gripið fram í.) ljúka samningsniðurstöðu og fá að kjósa á lýðræðislegan hátt (Forseti hringir.) um þá niðurstöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)