139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur mér satt að segja á óvart að þrefa þurfi eitthvað um það hvort hæstv. forsætisráðherra ætli að vera viðstödd umræðu um sjálft frumvarpið um Stjórnarráð Íslands. Ég hefði talið að það væri svo einboðið að hæstv. forsætisráðherra hlyti að vera viðstödd umræðuna, ekki bara vegna þess að um er að ræða mál sem hæstv. forsætisráðherra hefur sannarlega borið mjög fyrir brjósti, heldur er þetta mál af þeirri stærðargráðu og er flutt af hæstv. forsætisráðherra að eðlilegt er að gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra sé viðstödd umræðuna.

Ég ætla ekki að vera með sérstakar játningar hvað mig áhrærir en ég reyndi þó alltaf, ef ég man rétt, að vera viðstaddur umræður um mál sem ég hafði borið fram þótt málið væri komið í 2. eða 3. umr.

Fjölmörg dæmi eru um það í gegnum þingsöguna á síðustu árum að hæstv. ráðherra hafi verið kallaðir til umræðu jafnvel þótt hún væri komin í 2. eða 3. umr. Ég man jafnvel eftir dæmum þar sem hæstv. ráðherrar voru rifnir upp úr rúmum sínum og urðu að koma til þingsins vegna þess að eftir því var kallað. Það var talinn sjálfsagður hlutur. Sérstaklega á það auðvitað (Forseti hringir.) við í máli af þessu tagi.