139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni varðandi atkvæðagreiðsluna sem fram fór í dag um að halda skyldi áfram þingfundi, ég held að menn hafi ekki gert ráð fyrir því að hann yrði fram eftir öllu kvöldi og jafnvel nóttu. Það þarf auðvitað að fá einhvern botn í það hvernig það er. Það þarf að vera eitthvert skipulag á þessu starfi, fyrir utan það að engin ástæða er til að afgreiða þetta mál. Til hvers á að afgreiða þetta mál? Það á bara að setja það aftur í nefnd og láta það liggja, það þarf að fara rækilega yfir einstaka þætti málsins. Það þarf að fara að koma fram með einhver mál sem skipta máli fyrir efnahagsendurreisnina í landinu.

Ég glest mjög yfir því að hv. þm. Mörður Árnason ætli að taka til máls um fundarstjórn forseta. Ég vona að hann geti skýrt það út fyrir mér hvaða asi er á þessu máli, af hverju þarf að tala um það fram eftir öllu kvöldi. Eða er meiningin að ræða það alla vikuna? (Gripið fram í.) Á ekki að tala um neitt annað en það? Hvenær ætlar ríkisstjórnin að forgangsraða í þágu þess verkefnis sem við stöndum frammi fyrir? Er þetta eitt af þeim brýnu málum sem varða það? Ég verð að fá svör við því líka.