139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir miklum stuðningi við þau fundarsköp sem virðulegur forseti sem situr í stólnum núna viðhefur. Hér erum við að vísu að upplifa nokkuð gamalkunna takta. Samþykkt var á þingfundi fyrr í dag að fundur gæti staðið lengur en þingsköp kveða á um (Gripið fram í.) á þessu degi. (Gripið fram í: Þetta er hneyksli.) Það er alls ekki í fyrsta skipti sem það er gert og það er heldur ekki í fyrsta skipti sem stjórnarandstæðingar koma upp á miðju kvöldi og spyrja um hvenær fundi eigi að ljúka þótt öllum hljóti að vera ljóst að hann muni standa a.m.k. fram að miðnætti og vonandi eitthvað lengur. (Gripið fram í: Já?)

Síðan vil ég líka segja varðandi það mál sem hér er til umræðu og menn hafa uppi stór orð um að ekki sé stuðningur við, að stjórnin hafi ekki meiri hluta í því máli, að ég hvet stjórnarandstöðuþingmenn til að ljúka hið fyrsta umræðu um málið og fá það þannig í atkvæðagreiðslu til að á stuðninginn megi reyna sem fyrst. (Gripið fram í.)