139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum þrjú nefndarálit frá hv. allsherjarnefnd um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Þetta er afskaplega merkilegt frumvarp og ég tek fram að þetta er að mestu leyti gott frumvarp.

Hæstv. forsætisráðherra sem flytur þetta mál, Jóhanna Sigurðardóttir, var ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem var við völd þegar hrunið varð, þekkir þá ábyrgð sem af því leiðir og er eiginlega mjög vel til þess fallin að flytja þetta mál þar sem hún þekkir stöðuna í ríkisstjórninni og í öllu stjórnkerfinu þegar hrunið varð. Hins vegar er óskaplega mikil áhersla lögð á einmitt vald forsætisráðherra og ég kem að því seinna.

Því miður er með þetta frumvarp eins og mörg önnur á dagskránni í dag, af 32 málum, frú forseti, að mörg þeirra eru átakamál. Það er ekki búið að ná niðurstöðu í málinu. Reyndar kom hv. þm. Róbert Marshall, sem er formaður allsherjarnefndar, rétt áðan í andsvar og kom með ákveðinn sáttafána, að hann væri tilbúinn til að ræða málið. Það er ekki seinna vænna, frú forseti, að menn ræði málin á þeim nótum. Ég held að flestir séu á því að það þurfi að breyta lögunum um Stjórnarráðið. Það eru flestir á því að það þurfi að laga stjórnsýsluna. Þetta er ekki ágreiningur milli flokka. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna hæstv. forsætisráðherra sem hefur svo mikla reynslu af hruninu eftir að hafa þá verið ráðherra hafi ekki kallað til þingmenn úr öllum flokkum til að ræða þetta mál og finna á því þann flöt að allir megi vel við una, allir séu sáttir og það nái markmiðum sínum. Til þess er umræðan hérna, þó að fáir séu í salnum eru örugglega margir að hlýða á. Mörg sjónarmið sem koma fram leiða til góðs máls vegna þess að þá getum við valið. Þetta sjónarmið er þarna og annað sjónarmið annars staðar. Hvort er betra? Ef bara eitt sjónarmið er haft að leiðarljósi við samningu frumvarps kemur hitt sjónarmiðið ekki inn og frumvarpið verður ekki eins gott fyrir bragðið.

Eins og ég gat um hafa verið stunduð átakastjórnmál á Alþingi síðan þessi hæstv. ríkisstjórn tók við, frú forseti. Það er mjög miður því að þjóðin þarf samstöðu og samstarf og hún þarf að finna bestu lausnina sem allir eru meira og minna sáttir við, ekki að menn berji hver á öðrum eins og í hanaslag. Þannig eiga stjórnmálin ekki að vera og íslenska þjóðin á ekki skilið slík átakastjórnmál. Þetta mál er einmitt dæmi um það sem allir flokkar á þingi hefðu getað komið sér saman um, haft skoðun á og komið með sín sjónarmið inn í sem hefðu þá verið vegin og metin og athugað hvort væru góð eða slæm. Það var ekki gert, heldur er dúndrað inn frumvarpi í andstöðu við allt og alla sem leiðir til þess að við ræðum langt fram á nótt til að finna einhverja lausn sem loksins kom núna frá hv. formanni nefndarinnar, Róberti Marshall, sem ég met mjög mikils.

Þetta tókst í Árósamálinu, reyndar ekki fyrr en eftir töluvert mikil átök því að það var líka mikið átakamál, en þó tókst að finna ágæta lausn sem allir sættu sig við vegna þess að allir voru hlynntir því máli. Það eitt var tekið út að fólk um allan heim gæti gert athugasemdir og valdið erfiðleikum í stjórnsýslu á Íslandi og jafnvel tafið framkvæmdir sem þessu fólki koma ekkert við. Hvað kemur fólki í Suður-Ameríku við hvort eigi að brúa einhverja á á Íslandi?

Þetta mál er mjög sérstakt eins og reyndar margt sem ríkisstjórnin er að gera, þegar ríkisstjórnin sækir um aðild að Evrópusambandinu lýsa ráðherrar því yfir aftur og aftur að þeir séu á móti málinu. Ræðurnar sem voru haldnar hérna eru alveg furðulegar, atkvæðaskýringarnar þvílíkt furðulegar að þær ættu að vera skyldulesning í stjórnmálafræðum til að menn glöggvi sig á hvernig ekki á að vinna mál. Það var sótt um aðild að Evrópusambandinu jafnvel þótt sannarlega væri hægt að segja að meiri hluti þingsins væri á móti því og meiri hluti þjóðarinnar reyndar líka.

Hér hafa verið stunduð átakastjórnmál alveg síðan þessi ríkisstjórn tók við. Það er nánast alveg sama um hvaða mál er að ræða, gjaldeyrismálin eða hvað það er, það er alltaf verið að koma með átakastjórnmál sem er mjög miður.

Tveir ráðherrar, a.m.k. einn, eru á móti þessu máli og menn hafa meira að segja sagt, sem ég tek ekki undir, að það sé sett fram til að koma einum manni úr ráðherrastól, Jóni Bjarnasyni, hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Ég trúi því ekki. Annaðhvort nýtur sá hv. þingmaður trausts í stjórnarflokkunum eða ekki.

Aðrir ráðherrar hafa líka lýst yfir efasemdum. Það er dálítið skrýtið að mál sem ætti að vera sameiginlegur vilji allra að koma fram vegna þess að stjórnsýslan brást í hruninu — ég kem inn á það líka á eftir — skuli gert að svo miklu átakamáli að það eru meira að segja átök um það innan ríkisstjórnarinnar. Það er eins og verið sé að búa til átök, að einhver sé í illsku sinni að búa til átök innan ríkisstjórnar, innan stjórnarflokka og innan Alþingis um mál sem allir gætu verið sammála um.

Svo er eitt sem mér finnst menn gleyma. Lög eiga að gilda um langan tíma, þetta eru ekki nein bráðabirgðalög. Menn þurfa að átta sig á því að það koma nýir menn inn í dæmið. Þegar menn líta á þetta frumvarp með öllu þessu óskaplega mikla forsætisráðherraræði geta þeir reynt að setja inn sterka einstaklinga, t.d. hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson, og máta þessi lög við slíka sterka einstaklinga. Mér líst ekkert á það hvað þessi lagasetning öll er sniðin utan um persónu forsætisráðherra og hann gerður nánast einvaldur. Þetta er ekki gott mál að því leyti. Það má gera á þessu einfaldar breytingar þannig að því verði komið í lag.

Á þingi hafa komið upp mál, því miður allt of sjaldan, sem samstaða er um. Ég nefni til dæmis að í hv. félagsmálanefnd hefur myndast ansi góður andi milli allra hv. þingmanna sem eiga sæti í þeirri nefnd. Menn hafa leyst hvert málið á fætur öðru í góðri sátt og þannig að allir hv. þingmenn sem starfa í félagsmálanefnd vinna saman að málum. Ég nefni flutning á málefnum fatlaðs fólks. Ég nefni málið um umboðsmann skuldara. Það er hægt að nefna fjölda mála sem sýnir að þetta er hægt. Það er hægt að hafa stjórnmál sem byggja á uppbyggingu og samstarfi, taka tillit til mismunandi sjónarmiða og velja það besta úr. Það er algjör óþarfi að fara með hvert málið á fætur öðru beint í átök og hafa bara eitt sjónarmið að leiðarljósi, meira að segja bara sjónarmið einnar persónu sem ég hef grun um að sé einmitt hæstv. forsætisráðherra.

Það er ljóst, frú forseti, að margt brást í hruninu. Ég hef mörgum sinnum nefnt galla í hlutabréfaforminu, ég ætla ekki að koma inn á það núna, en það er líka alveg ljóst að stjórnsýslan brást, eftirlitsaðilarnir sem ég treysti. Ég treysti Fjármálaeftirlitinu, ég treysti öllum þeim eftirlitsstofnunum sem við höfum, Seðlabankanum og öðrum, og átti von á því að þessir aðilar ynnu eins og smurð vél. Það var ekki þannig. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að því að þetta væri ekki í lagi og þingmannanefnd allra flokka skilaði skýrslu með þingsályktunartillögu sem var samþykkt 63:0, sem er algjört einsdæmi og sýnir þann samhug sem getur verið á Alþingi ef menn vinna saman að hlutum. Ég ætla að fá að lesa úr henni, með leyfi frú forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum.“

Og enn fremur:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt. Ljóst er að ráðherraábyrgðarkeðjan slitnaði eða aflagaðist í aðdraganda hrunsins og ráðherrar gengu á verksvið hver annars, t.d. þegar fagráðherrar voru ekki boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið.“

Þetta var hinn harði dómur um stjórnsýsluna. Hún brást vonum mjög margra, þar á meðal mínum. Ég tel að það hefði verið mjög mikill vilji til þess í öllum flokkum og hjá allri þjóðinni að gera bragarbót á stjórnsýslunni, einmitt á Stjórnarráðinu, því frumvarpi sem við ræðum hér, og að þar hefðu verið kölluð til sjónarmið og skoðanir alls staðar að. Það var ekki gert. Menn stunda hérna átakastjórnmál, of oft, því miður. Ég vona að það breytist og ég vona að ég hafi ekki alveg rétt fyrir mér í þessu. Ég óttast samt að ég hafi það .

Við getum ekki annað en rætt forgangsmál. Við ræddum þetta mál til að verða hálftvö í nótt, frú forseti, og það er ekki nokkur bragur á að Alþingi sé að ræða svona mikilvæg mál um miðjar nætur. Svo tókum við aftur til starfa í morgun og hér eru framsögumenn nefndar ekki einu sinni við umræðuna. Ég geri samt ráð fyrir að þeir hlusti þannig að kannski verða góðar hugmyndir sem koma upp í umræðunni notaðar milli 2. og 3. umr. Við erum að ræða þetta núna við 2. umr. og þá þykir mér eðlilegt að fara í gegnum frumvarpið og breytingartillögur frá meiri hluta hv. allsherjarnefndar sem margar eru af hinu góða. Reyndar er ekki allt gott þar og kannski væri óeðlilegt að við værum ánægðir með allt en margt gott kemur fram í þeim. Það er nefnilega almennur vilji fyrir því að gera þessi frumvörp vel úr garði.

Ég hef ekki stórar áhyggjur eða athugasemdir við 1. gr. en strax við 2. gr. geri ég athugasemd. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skulu á hverjum tíma ekki vera fleiri en tíu.“

Strax þarna spyr ég mig: Af hverju ætlum við að setja svona reglu til allrar framtíðar? Af hverju mega ráðuneyti ekki vera fleiri en tíu? Hvað gerist ef sjónarmiðin breytast og menn telja aftur að það sé betra að hafa lítil og nett ráðuneyti en ekki risastór eins og velferðarráðuneytið verður sem tekur helminginn af ríkisútgjöldunum?

Ég minni líka á að í stjórnarskrá Íslands sem við hv. þingmenn höfum svarið eið að stendur í 15. gr., með leyfi frú forseta:

„Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn.“

Þetta er reyndar dálítið skrýtið ákvæði ef maður hefur 13. gr. í huga, að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Það þýðir að hann skipar ekki ráðherra heldur skipa ráðherrarnir sig sjálfir. Þetta er nokkuð sem þarf að laga í nýrri stjórnarskrá.

„Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“

Forseti landsins ákveður tölu ráðuneyta. Segjum að einhver forsætisráðherra kæmi í framtíðinni sem vildi hafa 12 ráðuneyti. Þá er mönnum vandi á höndum. Hann og forsetinn taka ákvörðun um þetta samkvæmt 13. gr. og samkvæmt stjórnarskránni ákveður hæstv. forsætisráðherra tölu ráðuneyta. Getum við sett ákvæði í lög sem takmarka stjórnarskrána? (Gripið fram í: Breytingartillaga.) Ég get ekki séð það og það að setja lög með því fororði sem er kallað úr sal, að þessu verði breytt — það er ekki gerð tillaga um að breyta þessu í breytingartillögunum. (Gripið fram í: Jú.) Má ég sjá, 3. gr., ég taldi mig hafa lesið þetta allt saman, 1. mgr. orðist svo — já, það er rétt, fyrirgefið, ég hef ekki lesið breytingartillögurnar nægilega vel. Það er búið að taka þetta í burtu og það er af hinu góða. Umræðan hefur þá leitt í ljós að þetta er sem sagt vel.

Ég held að ég hafi ekki fleiri athugasemdir við 2. gr. og ekki þá 1. en síðan kemur 3. gr. Þetta er stutt lagafrumvarp, ekki nema 27 greinar, en þegar það er lesið er ótrúlega oft minnst á forsætisráðherra, hvað hann á að gera og hverju hann á að stjórna. Forsetinn skipar sem sagt forsætisráðherra og síðan gerir forsætisráðherra tillögu um einstaka ráðherra og eins um að veita þeim lausn. Hann getur hvenær sem er sagt: Nú vil ég að þessi ráðherra sé leystur frá störfum.

Í sjálfu sér er þetta ekki slæmt, frú forseti. Ég hef oft undrað mig á því að það er eins og að á Íslandi séu tíu eða tólf ríkisstjórnir þar sem ráðherrarnir vinna algjörlega án tillits hver til annars. Þetta er ekki samhæft sem teymi eða sameiginlegt starf. Í sveitarstjórnum verður maður var við allt annað. Þar vinna menn saman en á Íslandi virðist sem ríkisstjórnin vinni eiginlega í sundur. Hver ráðherra fer bara sínu fram. Menn ákveða að veiða hval eða menn ákveða þetta og hitt og það er mjög mikið sjálfstæði einstakra ráðherra. Ég held að það sé af hinu góða að hæstv. forsætisráðherra geti skipað mönnum frá. Menn þurfa samt að átta sig á því hvað það þýðir, frú forseti.

Þá kem ég að 4. gr. sem er kannski sú veigamesta. Í 2. mgr. stendur, með leyfi frú forseta:

„Hvert ráðuneyti skal óskipt lagt til eins og sama ráðherra. Heimilt er að fela sama ráðherra að fara með fleiri en eitt ráðuneyti á hverjum tíma.“

Í næstu málsgrein stendur:

„Komi upp vafi eða ágreiningur um það undir hvaða ráðuneyti stjórnarmálefni heyrir sker forsætisráðherra úr.“

Hann á að ákveða þetta allt saman. Hann gerir tillögur um ráðuneytin, hann ákveður hvaða ráðuneyti eru, hann getur farið fram á lausn ákveðins ráðherra og hann getur flutt málefni til og frá ráðuneytum.

Upp á formfestuna hefði ég talið nauðsynlegt að bera þetta undir Alþingi, þótt ekki væri nema með þingsályktunartillögu, enda hafa komið fram hugmyndir um það í umræðunni. Það ætti að liggja fyrir að Alþingi sé á bak við þær hræringar sem forsætisráðherra hefur leyfi til að gera, hann sé ekki alveg einvaldur út og suður í því að ákveða hvað á að heyra undir hvern ráðherra o.s.frv.

Síðan er meira að segja í 5. gr., með leyfi frú forseta:

„Nú er stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta, sbr. 4. gr., og skal þá ljúka meðferð ólokinna stjórnsýslumála í því ráðuneyti sem við málefni tekur.“

Látum okkur sjá. Nú er einhver ráðherra að vinna í einhverju máli og forsætisráðherra óttast að hann taki einhverja ákvörðun sem honum er ekki að skapi. Hvað gerir hann? Hann flytur málefnið til annars ráðherra sem er búinn að lofa honum að vinna þetta eins og hann vill hafa það og þá er það sá ráðherra sem tekur ákvörðunina. Þetta er nánast orðið tilskipanakennt, frú forseti, forsætisráðherra getur nánast „vílað og dílað“ eins og honum dettur í hug. Ég held að þetta sé fulllangt gengið í samstarfinu af því að þetta leiðir ekki til samstarfs. Þetta leiðir til þess að forsætisráðherra einn tekur allar ákvarðanir. Nú skora ég á hv. þingmenn sem hlýða á mál mitt að máta inn í þetta sterkar persónur fortíðarinnar og sjá hvernig þær mundu hafa þetta. Það er ekki þannig að núverandi hæstv. ríkisstjórn verði að völdum að eilífu. Hún fellur reyndar í hverri viku en stendur alltaf af því að óttinn við Sjálfstæðisflokkinn er svo mikill. Auðvitað koma samt nýjar ríkisstjórnir og nýir aðilar að ríkisstjórn og þá þurfa menn að máta þetta við þá aðila og skoða hvernig það kæmi út.

Hér er komið upp ákveðið nýmæli um að setja eigi upp ráðherranefndir. Stundum hafa einhverjir ráðherrar tekið sig saman og það er einmitt gagnrýnivert þegar ráðherranefndir skipta sér af málefnum sem aðrir ráðherrar hafa yfir að segja. Ég þarf ekki að minnast á hvernig það var rétt fyrir hrunið þegar einn ráðherra var eiginlega tekinn úr sambandi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn fari mjög vandlega í gegnum fyrirbærið ráðherranefndir. Þær geta verið skynsamlegar, frú forseti, en það stendur reyndar ekkert um það hvort í ráðherranefnd sé einn ráðherra, tveir eða þrír. Það sem stendur í 9. gr. er að forsætisráðherra, að sjálfsögðu, stýri fundum ráðherranefnda. Það er verið að búa til viðbótarríkisstjórnir þar sem forsætisráðherra hefur líka sína þræði. Hann er eiginlega orðinn mjög valdamikill og dálítið merkilegt þegar stendur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að flokksræði og ráðherraræði hafi einmitt verið vandamál. Menn eru að gera það enn sterkara. Það er ekki þannig að menn eigi að vinna saman í ríkisstjórninni, nei, einn á að ráða. Það er ekki gott. Þar sem allir ráðherrarnir vita þetta verða þeir með tímanum, og eiginlega mjög fljótt, mjög hlýðnir. Forsætisráðherra getur hvenær sem er farið í kaffi suður á Bessastaði, fengið kleinur og tilkynnt um afsögn eða að einhver ráðherra sé hættur samkvæmt 3. gr. Hann getur veitt einstökum ráðherrum lausn frá embætti. Forsetinn gerir það samkvæmt tillögu forsætisráðherra þannig að hæstv. forsætisráðherra getur farið til Bessastaða, tilkynnt að nú eigi tiltekinn ráðherra að hætta og þá fellst forsetinn að sjálfsögðu á það. Þetta er orðið svo einfalt og þar sem ráðherrarnir vita þetta verða þeir ekki með mikinn uppsteyt gagnvart forsætisráðherra. Þetta er hættan, undirgefin ríkisstjórn og einn sem ræður. Enn meira flokksræði, enn meira foringjaræði.

Hér er heilmikil áhersla lögð á fundargerðir, sérstaklega er í breytingartillögunum lögð mikil áhersla á að formgera þetta. Það er af hinu góða nema menn ætli að ganga svo langt að hljóðrita og annað slíkt sem leiðir til hættu á því að umræður og ákvarðanir innan ríkisstjórnarinnar flytjist út fyrir ríkisstjórnarherbergið og menn fari að halda óformlega gervifundi í gegnum síma, hittast hver heima hjá öðrum eða í gegnum tölvu. Þeir þurfa þá væntanlega að hafa brenglað netfang þannig að ekki sé hægt að hlera það. Hættan er sú að umræðurnar fari út fyrir ríkisstjórnarfundina. Á ríkisstjórnarfundum verður allt mjög einfalt, mál númer þetta borið upp, samþykkt, já, engin umræða og ekki neitt, engin sjónarmið. Þetta er hættan þegar menn ganga svona langt í að fá upplýsingar um allt sem gerist á þessum fundum.

Í þessum ráðherranefndum er aftur talað um fundargerðir og að þar skuli færðar niðurstöður. Það er allt ágætt. Mér finnst þetta frumvarp gott í grunninn og ég er nærri viss um að ef þetta hefði fengið almennilega umræðu, því hefði verið kastað á milli manna fyrir löngu þegar verið var að semja það, í þingflokkunum, menn hefðu spjallað um þetta og komið með skoðanir til baka hefði þetta orðið virkilega gott frumvarp. En það er bara eitt sjónarmið hérna, sjónarmið hæstv. forsætisráðherra sem samdi þetta og gerði þetta einn. Þetta er of mikill einstaklingsgangur, frú forseti, aftur og aftur.

Svo kemur að 8. gr., með leyfi frú forseta:

„Forsætisráðherra ber að gæta þess að verkaskipting á milli ráðherra, sbr. 4. gr., sé eins skýr og kostur er.“ Nema hvað? Á hann að reyna að hafa þetta óskýrt, eða hvað? Það er verið að tala um sjálfsagða hluti. Svo eru inn á milli mjög klárir hlutir, eins og það að forsætisráðherra stýri fundum ráðherranefnda sem verða þá væntanlega fjöldamargar úti um allt og hann situr bara og „vílar og dílar“ á milli manna sem allir eru logandi hræddir við hann því að hann getur hvenær sem er rekið þá.

Í 12. gr. rak ég augun í skrýtið orðalag, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra er heimilt að láta í té óbindandi álit sem þýðingu geta haft til leiðbeiningar fyrir stjórnarframkvæmd á málefnasviði hans …“

Hvað þýðir eiginlega „óbindandi álit“? Í fyrsta lagi hefði hann getað veitt þarna álit en það að láta í té óbindandi álit þýðir ekki neitt. Hann er ekki bundinn af því, það hefur enga þýðingu. Það væri betra að það stæði bara „álit“ en hann á að veita „óbindandi álit“ sem þýðir að daginn eftir getur hann sagt: Nei, nei, nei, nei, þetta er ekki svona, þetta er allt öðruvísi, það er ekkert að marka þetta.

Í 12. gr. er setning sem ég mundi vilja fá einhvern til að þýða yfir á íslensku þannig að hún skiljist, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra fer með yfirstjórn stjórnvalda sem hafa á hendi framkvæmd stjórnarmálefna er undir ráðuneyti hans heyra, enda leiði ekki af lögum að stjórnvald skuli vera sjálfstætt gagnvart ráðherra.“

Þarna er örugglega hægt að finna miklu betra orðalag þannig að innihaldið skiljist. Ég skil þetta þannig að við séum með stjórnvöld sem ráðherra er yfir og hann fer með þau nema þau stjórnvöld sem eru sjálfstæð, samanber eftirlitsstofnanir eins og Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið. Þær stofnanir heyra ekki beint undir ráðherra. Þetta mundi ég vilja að hv. nefnd, sem fær örugglega málið milli 2. og 3. umr., skoðaði. Það er alveg nógur tími til stefnu, við eigum heila þrjá daga eftir til að ræða 32 mál, þannig að ég legg til að nefndin þýði þetta yfir á íslensku þannig að maður skilji innihaldið.

Síðan er líka breytingartillaga frá nefndinni um að flytja í rauninni 9. gr. inn í 11. gr. Þar er bætt við, sem er mjög gott, með leyfi frú forseta:

„Þótt ráðherra hafi tekið mál upp í ráðherranefnd leysir það hann ekki undan skyldu til að bera mál upp í ríkisstjórn …“

Væntanlega er um að ræða sama mál. Þarna er spurning um að skerpa á því og segja: að bera „sama“ mál upp í ríkisstjórn. Þá er það alveg á tæru. Hann getur borið upp eitthvert allt annað mál samkvæmt 6. gr. Þessar ráðherranefndir spretta þá upp eins og gorkúlur um allt því að menn munu leysa vanda skuldara í einni nefnd, vanda bankanna í annarri, sjávarútvegsins í þeirri þriðju o.s.frv. Það verða ráðherranefndir úti um allt og yfir þeim öllum verður forsætisráðherra. Samt er ekki búið að taka ríkisstjórnina úr sambandi, frú forseti, þó að það séu komnar ráðherranefndir. Menn eiga sem sagt að bera upp málin þar líka og ég mundi vilja skerpa á því og segja „sama mál“, að nefndin breyti sinni eigin breytingartillögu og tali um sama mál.

Ég gleymdi 7. gr., frú forseti, ég fer kannski ekki nógu vandlega í gegnum þetta, en í breytingartillögu nefndarinnar er talað um að undan skuli „þó fella þau atriði fundargerðar sem hafa að geyma upplýsingar sem falla undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna […] og skulu þau færð í sérstaka trúnaðarmálabók.“ Reyndar er þar vísað í 9. og 10. gr. upplýsingalaga sem gerir það að verkum að menn þurfa að finna viðkomandi málefni stað. Það er ekki endilega víst að þetta heyri allt beint undir þessi ákvæði upplýsingalaga og ég vildi gjarnan að hv. nefnd færi í gegnum það hvort upp geta komið einhver atriði sem heyra ekki undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna af því að almannahagsmunir — það þýðir eitthvað þó að það sé afskaplega víðtækt hugtak — hvort þetta sé ekki of sterkt því að það geta komið upp mál sem þurfa ekki endilega að fara út á netið.

Nefndin kemur með nýtt ákvæði inn í 11. gr. og það er mjög af hinu góða. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Færa skal skrá um samskipti og alla fundi milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.

Forsætisráðherra setur reglur um skráninguna.“

Enn einu sinni kemur forsætisráðherra með sitt hyggjuvit. Það er eins gott að þessi forsætisráðherra sé óskeikull og mjög gáfaður. Ég geri eiginlega kröfu til þess að forsætisráðherrar í framtíðinni verði mjög klárir og óskeikulir. Þarna á að færa skrá yfir öll samskipti. Þarna hefur mikið skort á, frú forseti, og ég tel hið besta mál að þarna sé færð skrá yfir öll samskipti þannig að hægt sé að fletta upp hver var á fundi með hverjum og hvers vegna.

Í 17. gr. er aftur verið að hamra á valdi ráðherrans innan hvers ráðuneytis. Það er kannski af hinu góða að skýrt sé kveðið á um að ráðherra ráði. Kannski hefur skort eitthvað á það, ég veit það ekki. Í 18. gr. stóð, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra skipar ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra að fengnu mati hæfnisnefndar, sbr. 19. gr. Ráðuneytisstjóri er í fyrirsvari við ráðningu annarra starfsmanna ráðuneytis.“

Ráðuneytisstjóri átti sem sagt að standa í þessum ráðningum. Þessu breytir nefndin. Í staðinn fyrir að ráðuneytisstjóri sé í fyrirsvari við ráðningu annarra starfsmanna ráðuneytis stendur:

„Aðrir starfsmenn eru ráðnir.“

Nema hvað? Og hver á að ráða þá? Maður getur ekki sagt: Aðrir starfsmenn eru ráðnir. Á ég að ráða þá, eða hver? Ég reikna ekki með að ég eigi að ráða þá eða hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Þetta þarf að skýra betur. Ég mundi segja að skrifstofustjóri eða ráðuneytisstjóri ætti að ráða annað starfsfólk í samráði við ráðherra. Það er það sem menn væntanlega eiga við, ekki bara að menn séu ráðnir. Þetta er slæm breyting, frú forseti.

Ég er að fara í gegnum einstakar greinar. Í 18. gr. var 2. mgr. ekki nógu skýr og þar kemur nefndin með ágætisbreytingu. Ég vil fá að lesa hana, frú forseti:

„Ráðherra setur ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanni ráðherra erindisbréf og ráðuneytisstjórar setja skrifstofustjórum erindisbréf, þar sem meðal annars skal kveðið á um starfssvið þeirra og starfsskyldur.“

Þetta er mjög gott, frú forseti, þetta skerpir á stjórnsýslunni ef farið er eftir því. Því miður rekst maður allt of oft á að menn setja reglur úti um allt þjóðfélag og svo er bara ekki farið eftir þeim. Það er mjög hættulegt. Þetta er gott ef menn framfylgja því. Svo kemur hérna:

„Forsætisráðuneytið skal gefa út leiðbeinandi erindisbréf fyrir ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og aðstoðarmenn ráðherra í Stjórnarráði Íslands.“

Gott mál. Mér finnst að það þurfi að standa þarna á eftir: og fylgist með framkvæmd þess. Þó að það standi í lögum að gera eigi ráðningarsamninga þegar fólk er ráðið í vinnu á Íslandi veit ég eftir samtöl mín við svo marga launþega að margir þeirra hafa engan ráðningarsamning. Það stendur skýrt í lögum að það eigi að gera ráðningarsamning en það er ekki farið að lögunum. Hvað gerist ef menn fara ekki að þessum lögum, ef ráðuneytin halda bara áfram að vinna eins og hingað til og gera ekki svona erindisbréf, búa þau ekki til? Það á sem sagt að gefa út eyðublað til að fylla út í sem gerir það kannski að verkum að menn verði duglegir við þetta.

Síðan kemur hlutur sem maður allt að því efast um í 20. gr. Nefndin vill þurrka út „faglegs“ í að leita skuli faglegs álits ráðuneytisins, nefndin gerir tillögu um að það orð falli brott, væntanlega vegna þess að það þrengir þetta of mikið. Ráðuneytið gefur kannski álit en getur ekki gefið faglegt álit. Síðan kemur samkvæmt tillögu allsherjarnefndar að 2. mgr. orðist svo, með leyfi frú forseta:

„Starfsmenn ráðuneyta skulu í samræmi við stöðu sína og hlutverk veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á staðreyndum og faglegu mati á valkostum þannig að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun.“

Mikið er þetta fallegur texti og bara yndislegt — nema eiga menn að fara að ljúga að ráðherra sínum? Það stendur hérna: Veita ráðherra „réttar“ upplýsingar. Er verið að gefa í skyn að menn hafi veitt rangar upplýsingar? Það getur vel verið að það sé allt í lagi að það standi þarna en það er eins og verið sé að segja: Opinberir starfsmenn eiga ekki að ljúga. Mér finnst það ekki nógu sniðugt.

Síðan er 22. gr. sem mikið hefur verið rætt um — nú er tími minn að verða búinn — um aðstoðarmenn. Þegar menn þjappa ráðuneytum saman, eins og velferðarráðuneyti sem verður alveg gífurlega stórt með mikil útgjöld, allt heilbrigðiskerfið undir, allt félagsmálakerfið, Tryggingastofnun o.s.frv., verður þetta mjög umfangsmikið. Það getur vel verið að það sé ágætt fyrir ráðherra að hafa aðstoðarmenn, en hvað eru menn að gera í rauninni, frú forseti? Þeir eru að stjórnmálavæða ráðuneytin. Það kemur sem sagt her af fólki, 23, ef allir eru ráðnir sem má ráða, 23 pólitískt ráðnir starfsmenn inn í ráðuneytin. Stjórnmálin taka völdin í ráðuneytunum sem löngum hafa búið við ákveðinn stöðugleika þó að það kannski gangi ekki alveg eins langt og í grínþáttunum „Já, ráðherra“. Þar hefur ríkt ákveðinn stöðugleiki. Ráðherrar koma og fara en ráðuneytisstjórarnir og ráðuneytin starfa áfram. Þarna er verið að breyta því. Það er verið að taka inn heilmargt pólitískt ráðið fólk sem svo hættir um leið og ráðherrann, fær biðlaun og alls konar góð laun, fær sem sagt kjör skrifstofustjóra og ég veit ekki hvað. Þetta verða bitlingar og ég óttast siðspillingu þarna í framtíðinni.

Ég ætla rétt aðeins að tala um málstefnu. Það er ágætt að hafa öll málefni á íslenskri tungu en ég vil nefna að í 4. gr. stendur nokkuð sem ég skil ekki og ég ætla að klykkja út með því, með leyfi frú forseta:

„Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum forsetaúrskurðar …“ — Ég skil ekki orðið „ber“. Ég mundi segja: „heyrir“ undir eða eitthvað slíkt, frú forseti.