139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman að fylgjast með hv. þingmanni í ræðustól, hann er að mínu mati hálfhortugur í tilsvörum sínum. En ég er ánægð með að hv. þingmaður er vel að sér um stjórnskipan í öðrum Evrópuríkjum og þá sérstaklega á Norðurlöndunum.

Ég er ekki á móti þeim breytingum sem gerðar voru á þingsköpunum. Við erum að þróa okkar þing, reyna að gera það sterkara, meðal annars á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem við ræddum fyrir ári, þ.e. skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem bent var á að við þyrftum að styrkja þingið. Það var eitt af þeim atriðum sem við þyrftum að taka á. Við höfum hins vegar ákveðna sérstöðu. Við erum ekki að öllu leyti, eins og kom fram í fyrra andsvari mínu, með sambærilegar aðstæður og hin Norðurlöndin. (Gripið fram í.) En við erum hins vegar að fara í ákveðnar breytingar sem verður mjög spennandi að fylgjast með, hvort íslensk stjórnmál ráði hreinlega við að fara í. Ég er tilbúin til (Forseti hringir.) að taka þátt í þeirri vinnu og ég hlakka til að sjá hvernig það allt saman kemur út. En við verðum þá að tileinka okkur það að hlusta betur (Forseti hringir.) hvert á annað í staðinn fyrir að svara hvert öðru með hortugheitum og skætingi.