139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vona að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ætli ekki að fara í andsvör við mig um ávarpið „frú forseti“, en það er nú engu líkara. Það er alveg rétt sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði hér áðan, maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta stundum í þessum sal (Gripið fram í.) og það á við hvort sem maður situr í sæti sínu eða á forsetastóli. (Gripið fram í.)

Ég ætla enn og aftur að ítreka ánægju mína með þær breytingar sem hv. allsherjarnefnd gerði á því frumvarpi sem við ræðum. Fyrir hádegi í gær hafði ég að mig minnir farið stuttlega yfir breytingar sem er að finna í 2. og 4. gr. frumvarpsins, þ.e. hið margrædda og umdeilda ákvæði í 2. gr. um að ríkisstjórn skipti sjálf með sér verkum.

Ég hef nú hlýtt á ræður flestra hv. þingmanna í þessari umræðu og verð að segja að þar skiptir alveg í tvö horn. Annars vegar er um að ræða mjög margar vel undirbúnar og málefnalegar ræður þar sem menn segja kosti og lesti á frumvarpinu og lýsa skoðunum sínum og viðhorfum til þeirra tillagna sem hv. allsherjarnefnd hefur lagt fram. Hins vegar hafa hér farið fram að mínu viti mjög ómarktækar orðræður sem fyrst og fremst hafa beinst að hæstv. forsætisráðherra, persónu hennar og meintum tilraunum hennar til þess að kollvarpa stjórnskipulagi á Íslandi með framlagningu þessa frumvarps og taka upp einræði á Íslandi eftir geðþótta hverju sinni. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst slíkt tal fullkomlega ómálefnalegt.

Ég veit eiginlega ekki hvort ég á heldur að segja að ég vorkenni þeim hv. þingmönnum sem eru með hæstv. forsætisráðherra algerlega á perunni og geta ekki komist lengra en í 2. gr. þessa mikilvæga frumvarps eða hvort ég á að segja hitt sem mér dettur líka í hug, að þetta sé dæmi um ósmekklegt einelti og illa uppalda stráka.

Hins vegar hafa þeir sem svona tala verið í minni hluta þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls og flutt ræður — ræður. Ég vil þó undanskilja þá tvo hv. þingmenn sem töluðu á undan mér í umræðunum í dag. Ég hef sem betur fer, finnst mér, orðið vör við vilja úr öllum stjórnmálaflokkum til að ná samkomulagi um það að ljúka þessu þrátali hér og líka öðrum þeim málum sem fyrir þinginu liggja. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hrósa hv. þm. Eygló Harðardóttur sérstaklega sem kynnti hugmynd sína í gær um breytingar á frumvarpinu hvað varðar 2. gr. sem ég tel að geti orðið til samkomulags á þessum haustdögum og orðið til þess að við ljúkum fleiri brýnum málum en færri.

Ég hyggst nefna tvö önnur atriði í þessu frumvarpi en ég fór allítarlega yfir frumvarpið og gerði grein fyrir miklum fyrirvörum mínum við það við 1. umr. Ég fór vandlega yfir, eins og ég sagði, 2. gr. áðan en það eru tvö atriði í frumvarpinu sem mig langar að fjalla lítillega um í þessari síðari ræðu minni, þ.e. annars vegar eru það ákvæði í 6., 7. og 11. gr. frumvarpsins og hins vegar í 22. gr.

Í 6., 7. og 11. gr. frumvarpsins er fjallað um ríkisstjórnarfundi og ráðherranefndir og fundi þeirra. Þar er í fyrsta sinn lagður lagarammi um það hvað skuli rætt á ríkisstjórnarfundum og hvernig það skuli fært til bókar en einnig um aðgengi almennings að þeim upplýsingum. Þetta tel ég gríðarlega mikilvægt. Mér þykir miður að margir þeir sem hér hafa talað hafi ekki látið svo lítið að fjalla um þetta mikilvæga atriði. Það sem kom í ljós við rannsókn á aðdraganda hrunsins var að einmitt þessum málum var mjög ábótavant. Reyndar er fræg afstaða fyrrverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, sem höfð var í flimtingum í fjölmiðlum hér um árið, að til þess að það kæmist nú enginn að því hvað færi á milli hans og annarra í stjórnkerfinu eða annars staðar þá vildi hann hvorki nota tölvupóst né minnisblöð. Þetta formleysi og stjórnleysi kom okkur nefnilega í koll í aðdraganda hrunsins vegna þess að menn gátu spilað sig algjörlega ábyrgðarlausa og gera reyndar sumir hverjir enn.

Hér er, frú forseti, brugðist við ábendingum frá rannsóknarnefnd Alþingis og við tillögum sem komu frá þingmannanefndinni. Á blaðsíðu 5 í nefndaráliti hv. meiri hluta allsherjarnefndar er vísað til fjögurra kafla sem tekið er mið af, ekki bara við frumvarpsgerðina sem slíka heldur einnig við þær breytingar sem hv. allsherjarnefnd gerði á frumvarpinu en þær voru til þess fallnar að setja ákvæði um að fundargerðir ríkisstjórnar skyldu birtar innan árs frá því að fundur væri haldinn, að haldin skyldi trúnaðarmálabók í ríkisstjórn um þau mál sem ættu að fara leynt og að hljóðrita skyldi ríkisstjórnarfundi og gera þær hljóðritanir opinberar eftir tiltekinn tíma eða 30 ár.

Ég vil líka nefna eitt atriði til viðbótar sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til. Það er að á ríkisstjórnarfundum skuli ekki aðeins fjallað um þau mál sem tilgreind voru í frumvarpinu heldur einnig að þar skuli skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess og þegar fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar. Þetta er gríðarlega mikilvægt að mínu mati og það er reyndar ítarlega fjallað um það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvernig þrýstihópar og aðilar utan stjórnkerfisins geta haft áhrif á óformlegan hátt, á óskráðan hátt í stjórnkerfinu bæði gagnvart embættismönnum og stjórnmálamönnum. Með þessari tillögu hv. allsherjarnefndar er lagt til að skýrt skuli frá slíkum samskiptum í ríkisstjórn sem þýðir þá, eins og ég sagði áðan, að það verði fært til bókar. Þetta er ég mjög ánægð með.

Í 11. gr. frumvarpsins er enn fremur um að ræða ákvæði sem hv. allsherjarnefnd hefur bætt við þar sem kveðið er á um frekari skráningarskyldu á samskiptum og öllum fundum milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess og að settar skuli reglur um slíka skráningu. Eftir þessu var mjög kallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis út af því hversu óformleg og ábyrgðarlítil í reynd þessi samskipti innan stjórnsýslunnar og milli stjórnsýslunnar og hagsmunaaðila voru. Ég lýsi því mikilli ánægju minni með vinnu hv. allsherjarnefndar að þessu leyti.

Frú forseti. Áður en ég slít mig frá þeim ákvæðum sem snúa að því hvað skuli fjalla um á ríkisstjórnarfundum og hvernig það skuli skráð og opinberast almenningi vil ég gera grein fyrir því enn og aftur að á nefndaráliti hv. meiri hluta allsherjarnefndar er ég með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur að tillögunni um hljóðritun á öllum fundum ríkisstjórnar og opinberun þeirra eftir 30 ár. Ég hef nokkurn vara á þessari tillögu ef satt skal segja. Ég er svolítið hrædd um að ákvæði sem þetta og hljóðritun breyti ríkisstjórnarfundum í einhvers konar málfund þar sem menn tala fyrir sagnfræði framtíðarinnar jafnvel þótt um sé að ræða 30 ár. En kannski er þetta óþarfahræðsla. Ég hef hlustað grannt eftir því hvað menn segja um þetta ákvæði og ég heyri að sitt sýnist hverjum. Ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á því og þess vegna var ég með fyrirvara á þessu nefndaráliti. En ég mun halda áfram að hlusta á þær umræður og það sem hv. þingmenn hafa hér til málanna að leggja.

Frú forseti. Ef ég vík að 22. gr. sérstaklega gerði ég í mínu máli við 1. umr. miklar athugasemdir við þau ákvæði frumvarpsins sem lutu að aðstoðarmönnum ráðherra. Ég verð að segja það og endurtaka að verkefni ráðherra í ráðuneyti eru tvíþætt. Annars vegar hefur ráðherra stjórnskipulegt hlutverk innan stjórnsýslunnar og kemur fram sem slíkur, en hins vegar ber honum að ástunda pólitíska stefnumótun og sækir samkvæmt ákvörðunum Alþingis vald sitt aftur til þjóðarinnar í almennum þingkosningum ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Það er rauður þráður í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndar að það þurfi að styrkja þetta stefnumótunarhlutverk.

Í hv. allsherjarnefnd var okkur kynnt skýrsla frá OECD sem fjallar einmitt um það sem er tekið á í 22. gr., sem eru aðstoðarmenn ráðherra. Þar kemur fram að það er allur gangur á þessu í OECD-löndunum og reyndar hefur ríkt lengst af og víðast lítil formfesta í þessum efnum. Þó eru auðvitað dæmi þess, sem við höfum rætt hér áður, að í sumum löndum koma ráðherrar inn með heilt kabínett og fara út aftur með fjölda aðstoðarmanna sem eru þá embættismenn, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sviðsstjórar, á þeim sviðum stjórnsýslunnar sem ráðuneytið annast.

Í frumvarpinu var upphaflega gert ráð fyrir miklum breytingum á því kerfi sem þó hefur þróast frá árinu 1971, að ég held, í ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar frá 1971–1974 þegar fyrst voru ráðnir aðstoðarmenn inn í ráðuneytin. Þeir voru þá þrír talsins, flestir urðu þeir 17 í þriðja ráðuneyti Davíðs Oddssonar 1999–2003 og eitthvað þar á milli á þessu tímabili. Samtals eru skráðir hér í ritgerð sem ég vísa til 156 aðstoðarmenn á tímabilinu 1971–2008. Það er því nokkur reynsla komin af þessu fyrirbæri og ég var ósátt við þau ákvæði frumvarpsins sem gerðu ráð fyrir því, að mér fannst, að dregið yrði úr mikilvægi starfa aðstoðarmanna sem ég vil ekki gera því að ég tel að störf þeirra séu gríðarlega mikilvæg. Hlutverkið að vera pólitískur ráðgjafi og aðstoðarmaður ráðherra og vinna að pólitískri stefnumótun er mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi og mikilvægt þingræðinu. Ef við ætlum að tala um tengsl milli þings og framkvæmdarvalds er eitt hið allra mikilvægasta að ráðherrar geti ástundað pólitíska stefnumótun og hafi til þess aðstöðu.

Ég er mjög ánægð með frumvarpið eins og það kemur nú frá hv. allsherjarnefnd af því að umgjörðin um störf aðstoðarmanna er að mestu óbreytt en skýrari og formfastari og þar með er ábyrgðin líka skýrari. Það er ekki lengur til að mynda gerður greinarmunur á ráðgjafa og aðstoðarmanni eins og frumvarpið upphaflega gerði ráð fyrir og í ræðu minni við 1. umr. benti ég einmitt á að það væri ástæðulaust þar sem viðkomandi starfsmaður hefði engu stjórnsýsluhlutverki að gegna að gera greinarmun á starfsheitum eða stöðu aðstoðarmanna og skipta þeim upp í annars vegar aðstoðarmenn og hins vegar ráðgjafa. Það varð niðurstaða nefndarinnar að í stað eins aðstoðarmanns og eins ráðgjafa er talað um tvo aðstoðarmenn, þ.e. að þeir skulu ekki vera fleiri en sem nemur tveimur fyrir hvern ráðherra á hverjum tíma en þó hefur verið gerð tillaga um það sem ég tel líka mikilvægt að á álagstímum eða vegna sérstakra aðstæðna eða vegna stærðar ráðuneyta eða verkefna sé heimilt að ráða þrjá til viðbótar í Stjórnarráðið eða til ráðherranna allra ef þörf krefur.

Þá komst nefndin að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að hið nýja aðstoðarmannakerfi kæmi til framkvæmda þegar við gildistöku laganna en ekki eftir næstu kosningar þar sem nefndin telur mjög brýnt að efla hina pólitísku skrifstofu ráðherra.

Það var einnig fjallað um kjör aðstoðarmanna og formgert það sem tíðkast hefur í þeim efnum. Enn fremur var tekið inn ákvæði sem fyrir var í lögum en frumvarpið gerði ráð fyrir að félli út, um rétt aðstoðarmanna til að snúa aftur til fyrri starfa sem ríkisstarfsmenn, að það skuli halda gildi sínu, og nefndin leggur til breytingu í þá veru.

Frú forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir þeim breytingum sem urðu á frumvarpinu í hv. allsherjarnefnd og ég hafði áður gert athugasemdir við. Ég lýsti því yfir í upphafi máls míns við 1. umr. að ég hlakkaði til umræðunnar í nefndinni og ég mundi leggja mig fram um það að ná fram tilteknum breytingum á frumvarpinu sem ég er mjög ánægð með.

Ég vil hvetja hv. þingmenn til að horfa á þetta stóra mál í heild, hætta að vera í pólitískri naflaskoðun og berja á hæstv. forsætisráðherra út af einni tiltekinni grein í þessu frumvarpi en einbeita sér að því sem ég tel að sé fyllilega mögulegt og ætti að vera innan seilingar, að ná samkomulagi um hvernig megi breyta þeirri grein þannig að menn geti vel við unað. Ég tel að Stjórnarráðið okkar hafi ekki verið svo ofboðslega gott eins og menn vilja vera láta að þar megi engu breyta. Ég tel það alls ekki. Og ég tel mjög mikilvægt að þetta mál fái framgang í þinginu. Það þarf ný lög um Stjórnarráð Íslands. Það þarf að setja þær reglur sem hefur verið gerð tillaga um og ég tel að málið sé mjög vel unnið og fullkomlega í standi til þess að afgreiðast frá þinginu og það sem allra fyrst.