139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þannig sem ég sé það, að ráðuneytið geti snúið sér til — það sér jú um framkvæmd, það verður vart við ágalla á einhverju frumvarpi, segjum um barnaverndarlög eða málefni fatlaðs fólks, og ráðuneytið segir: Hér þarf að setja lög, eða hér þarf að breyta lögum.

Þá snýr það sér til viðkomandi nefndar og óskar eftir því að nefndin semji og flytji slíkt mál, það er akkúrat þannig. Þetta gætu líka félagasamtök, Bændasamtökin, sjómannasamtök, ASÍ eða bara hver sem er í þjóðfélaginu gert, snúið sér til viðkomandi nefndar og óskað eftir því að hún flytji breytingartillögu um þetta eða hitt. Það getur verið lítið atriði, það getur verið stórt atriði, Félag ábyrgra feðra gæti komið með breytingartillögur eða hugmyndir að því og snúið sér til viðkomandi nefndar. Nefndin mundi svo taka ákvörðun um hvort ástæða sé til að flytja málið og þegar hún er búin að taka ákvörðun lætur hún semja það hjá einhverri skrifstofu, lagaskrifstofu, sem væri nægilega stór til að ráða við það.

Þetta er að sjálfsögðu gert í dag í ráðuneytunum. Þar sem við höfum fjárveitingavaldið flytjum við bara peningana með þessu fólki inn til Alþingis. Ég hafði einmitt hugsað að þetta yrði unnið svona. Síðan þegar nefndin er búin að semja frumvarpið og það jafnvel farið í 1. umr. er það sent til umsagnar til viðkomandi ráðuneytis og spurt: Hvernig haldið þið, elsku vinir, að gangi að framkvæma þetta? Þá kæmi athugasemd frá ráðuneytunum og frumvarpinu yrði hugsanlega breytt eitthvað. Það er hinn eðlilegi gangur. Þá er búið að aðgreina mjög vel löggjafarstarfið og framkvæmdastarfið.