139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni menntamálanefndar, hv. þm. Skúla Helgasyni, fyrir góða og drengilega ræðu um málefni Kvikmyndaskólans. Það vakti mikla athygli mína þegar formaður menntamálanefndar lét af einbeittum stuðningi sínum við Kvikmyndaskóla Íslands og að sanngjörn lausn fyndist á málefnum hans. Það gerðist í sömu andrá og sá orðrómur komst á kreik að ekki væri í lagi með fjármál Kvikmyndaskólans og að Ríkisendurskoðun hefði hann á borði sínu til að reyna að finna út úr svínaríinu.

Hvaðan skyldi sá orðrómur hafa komið? Ég hef frá upphafi reynt að styðja við bakið á Kvikmyndaskóla Íslands vegna þess að mér hefur verið ljóst sem kvikmyndagerðarmanni hvílíkt afrek þessi skóli er. Þessi kvikmyndaskóli hefur fengið vottorð frá CILECT, samtökum kvikmyndaskóla, um að hann sé í fremstu röð kvikmyndaskóla í heiminum. Þessi skóli útskrifar nemendur með lægri tilkostnaði fyrir ríkið en má segja allir, eða örugglega flestir, aðrir sambærilegir skólar.

Ég lít svo á og ætla að endurtaka þau ummæli mín að það væri klúður á heimsmælikvarða að eyðileggja þennan skóla. Það segi ég vegna þess að við eigum ekki marga skóla í íslensku menntakerfi sem hafa hlotið vottun upp á að vera á heimsmælikvarða en það er íslenski draumurinn í hnotskurn.

Ég hef aldrei farið fram á sérstaka meðferð fyrir Kvikmyndaskóla Íslands. Allt sem ég hef farið fram á er sanngirni. Nú hefur verið farið illa með þennan skóla á ósanngjarnan hátt. (Forseti hringir.) Mál er að linni og tímabært að kvikmyndaskólinn okkar, þessi glæsilegi skóli, fái að taka til starfa.