139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[15:58]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Það er sárt að búa á Íslandi í dag. Á hverjum degi horfum við upp á vaxandi misskiptingu í samfélaginu, réttlætið er fótumtroðið.

Forseti. Ég vil vekja athygli á því að þegar bankarnir voru endurreistir voru lánasöfn hinna föllnu banka færð yfir í nýju bankana á hálfvirði. Þetta er lykilatriði. Það þýðir að nýju bankarnir hafa ekki verið að afskrifa neitt. Afskriftirnar fóru fram árið 2009 en þær hafa bara ekki gengið áfram til heimilanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Þess í stað skila bankarnir ofurhagnaði.

Þessi atburðarás er á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar sem þó hefur boðið upp á ýmis sértæk og mannaflsfrek, hreinlega atvinnuskapandi úrræði sem henta þó fáum. Ég hef talsvert skipt mér af þessum málaflokki og margir hafa leitað til mín, bæði eftir ráðum en eins til að deila reynslu sinni. Reynsla raunverulegs fólks er að Ísland er óréttlátt. Meðferð skulda er tilviljanakennd, eins konar happdrætti djöfulsins. Það skiptir t.d. máli hvar fólk er í viðskiptum hvernig 110%-leiðin er útfærð, hvort það er í viðskiptum hjá Íbúðalánasjóði, sem er í eigu ríkisins, eða í ríkisbankanum Landsbankanum. Stenst þetta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?

Verst er staða þeirra sem skulda þrotabúum sem engan hag hafa af áframhaldandi viðskiptum, en best er staða þeirra sem skuldsettu sig sem mest og hafa minnst greitt. Bankarnir bjóða þeim mestu afskriftirnar, bara ef þeir fara að greiða aftur. Þetta kerfi, eða ættum við kannski að kalla þetta frumskóg, er ógagnsætt, ósanngjarnt og óverjandi.

Forseti. Hinar raunverulegu afskriftir fóru fram árið 2009, þær hafa bara ekki gengið til heimilanna. Því verðum við að breyta. Það er svigrúm fyrir réttlæti. (Gripið fram í: Heyr, Heyr!)