139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er varasamt að veikja löggjafann, þ.e. að færa meira af völdum til framkvæmdarvaldsins. Ég er algjörlega andsnúinn því að það sé gert og mér sýnist að verið sé að gera það í þessu máli.

Hér er líka fjallað um oddvitaræði, foringjaræði. Við þekkjum það ef til vill úr öllum flokkum að einhvern tíma hafi slíkt tíðkast. Ég man eftir því í Framsóknarflokknum að á árunum 2004–2006 var mikið oddvitaræði í flokknum, þá stjórnaði tiltölulega fámennur hópur flokknum. Á því hefur sem betur fer orðið mikil breyting í mínum ágæta flokki. Ég veit ekki hvernig það hefur verið í flokki hv. þingmanns.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að frumvarpið eins og það liggur fyrir sé til þess fallið að ráða bót á því oddvitaræði, foringjaræði sem hér er talað um.