139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir og þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við sáum þá aðför sem var gerð að heilbrigðisstofnunum úti á landsbyggðinni við gerð síðustu fjárlaga en henni var hrundið að stærstum hluta. Ég verð þó að minna hv. þingmenn á að sú vá vofir enn yfir, það mál liggur ekki alveg klárt fyrir. Hluta af þeirri hagræðingarkröfu var frestað og til viðbótar því sem var umfram 50 milljónir þannig að það hangir í loftinu mikil óvissa gagnvart til að mynda þessum heilbrigðisstofnunum, bæði á Húsavík og Sauðárkróki. Ég hef verulegar áhyggjur af því og við hv. þingmaður deilum þeim.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að það komi þá alveg skýrt fram í forgangsröðuninni hjá ríkisstjórninni hvar á setja einhverja peninga og hvar á að skera niður. Það sýnir sig með öllum þessum innihaldslausu frösum, til að mynda um kynjaða fjárlagagerð og svoleiðis, að á sama tíma og mokað er inn í ráðuneytin tugum milljóna til að gera einhverja svoleiðis vinnu er verið að reka konurnar út af sjúkrahúsunum (Forseti hringir.) og öldrunarstofnunum. Síðan tala menn um kynjaða fjárlagagerð og þetta eru afleiðingarnar af því.