139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði hér. Það blasir við og þarf í raun og veru ekki að vera deiluefni og er alveg með ólíkindum að það skuli hafa orðið deiluefni hvort verið sé að veikja Alþingi eða styrkja framkvæmdarvaldið, það blasir svo við. Það kunna svo að vera einhver rök fyrir því. Sumir hafa sagt að betra sé að hafa sterkt framkvæmdarvald, það auki skilvirknina, það auki sveigjanleika. Ég tók eftir því þegar ég las í gegnum markmiðslýsingu sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar að þar er talað um ýmsa hluti í því sambandi. Þar er m.a. talað um skilvirknina, þar er m.a. talað um sveigjanleikann, en það sem vekur mesta athygli er það sem ekki er sagt þar. Í þessari markmiðslýsingu er ekki sagt eitt einasta orð um neitt sem lýtur að lýðræðislegum spurningum. Við höfum verið að benda á það einmitt núna að það kunni að vera jákvætt markmið í sjálfu sér að hafa sveigjanlegt og skilvirkt framkvæmdarvald en það má ekki gerast með þeim hætti að við göngum fram yfir einhverja línu sem lýtur að lýðræðislegu valdi og lýðræðislegum (Forseti hringir.) spurningum. Það er auðvitað það sem við höfum gagnrýnt hér á undanförnum sólarhringum.