139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg magnað að vinnubrögðin þurfi að vera með þessum hætti á þinginu, eins og ég hef áður komið að í þessari umræðu. Þetta á rætur að rekja til þess að hæstv. forsætisráðherra kýs að koma með mikil ágreiningsmál inn í þingið á síðustu metrum þess. Þetta upplifðum við í vor og skapaði mikla pressu þar sem tugir mála voru á dagskrá þingsins en að lokum tókst ekki að ljúka nema fáum þeirra og einhverjum var frestað til þessara haustdaga núna og þá upplifum við þetta aftur, hér koma mál sem ekki eru fullbúin í raun eins og ítrekað hefur komið fram í umræðunni og mikil óeining er um og það er reynt að keyra þetta í gegn með valdi.

Þetta er nokkuð sem hæstv. ríkisstjórn á ekki að gera, það á ekki að bjóða þinginu upp á þessi vinnubrögð, um þessi mál á að geta verið miklu meiri samstaða og vinnubrögðin vandaðri en raun ber hér vitni. Eins og fram hefur komið er mikil andstaða við þetta mál, ekki aðeins á það við að það sé ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur er málið þannig vaxið að það kom ekki einu sinni út úr ríkisstjórn með öllum greiddum atkvæðum, þar voru fyrirvarar við málið og hreinlega andstaða. Síðan er það þannig í ríkisstjórnarflokkunum að um þetta eru mjög skiptar skoðanir og kannski meira en borið hefur á hér í umræðunni.

Mál sem þessi sem fjalla um Stjórnarráðið eiga auðvitað að hljóta miklu vandaðri undirbúning og um þau er mikilvægt að náist mikil samstaða. Það er ekki eins og ekki hafi eitthvað verið gert á þessum vettvangi vegna þess að frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók við völdum í febrúar 2009 hefur lögum um Stjórnarráðið verið breytt þrisvar sinnum.

Það hefur ekki farið fram nein skipulögð eða markviss úttekt á áhrifum þessara breytinga á skipulag og starfshætti Stjórnarráðsins. Það hefur ekki verið skoðað hvaða hagræðing hefur fengist af þessum skipulagsbreytingum og ég fullyrti í ræðu sem ég hélt hér í gær um þetta mál að staðan væri einfaldlega þannig að sennilega væri kostnaðurinn meiri við þessi ráðuneyti eftir breytingarnar en hann var áður. Þá spyr maður sig: Hvers vegna er verið að gera þetta við þær erfiðu aðstæður sem eru í okkar samfélagi? Af hverju erum við að stíga þessi skref? Er verið að breyta bara breytinganna vegna? Hér þarf að forgangsraða í þágu þeirra erfiðu tíma sem við stöndum frammi fyrir, í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og karp eins og við horfum fram á hér á ekki að eiga sér stað, allra síst á svona erfiðum tímum.

Málið var einnig fellt í allsherjarnefnd þingsins sem eru ekki mörg dæmi um. Formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, ætlaði að afgreiða málið út úr nefnd en hafði ekki til þess meiri hluta í nefndinni þannig að það er ekki hægt að segja annað en að málið hafi verið fellt og þá hófust einhver hrossakaup og inn komu atriði eins og það að upptaka skyldi fara fram á ríkisstjórnarfundum og við getum rætt um það lengi hvaða afleiðingar það mun hafa. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni þegar hann ræddi það hér áðan, þetta verður auðvitað til þess að á ríkisstjórnarfundum verður umræðan takmörkuð, ákvarðanir og umræður munu fara fram utan formlegra ríkisstjórnarfunda og síðan verða ríkisstjórnarfundirnir einhvers konar afgreiðslufundir.

Er þetta heppileg þróun? Ég held að við séum flest sammála um að þetta er vitleysa. Þetta er afturför en samt skal þetta keyrt í gegn til að mæta duttlungum einhverra örfárra þingmanna sem á þetta leggja áherslu. Allt til þess að koma þessu máli í gegn. Við erum að eyða mikilvægum tíma í þras sem er þinginu ekki til sóma og kallar á gagnrýni alls staðar um svokallað málþóf.

Í ræðu minni í þinginu í gær fór ég yfir hvað málþóf er og þeim ummælum mínum hefur verið velt hér upp í umræðunni í dag. Þegar um er að ræða málþóf eða lengri umræður eins og nú þýðir það ekki endilega að hér séu haldnar innihaldslausar ræður, alls ekki. Hér hafa verið fluttar mjög málefnalegar ræður og margir vilja tjá sig um þetta mál, en það hefur algjörlega skort á málefnalega umræðu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, hv. þingmanna þeirra, í ræðustól Alþingis. Þeir hafa komið hér fram með ómálefnalega gagnrýni, gífuryrði, talað niður til þingmanna, talað um að þeir séu greindarskertir, þeir séu geðklofa og síðan talað niður til forseta Íslands. Þetta komast hv. þingmenn upp með nánast átölulaust frá forseta þingsins. Það er ámælisvert. Á þessu ber að taka af festu af virðulegum forseta á öllum tímum gagnvart öllum þingmönnum. Við eigum ekki að innleiða svona málflutning eða heimila hann í þinginu, við eigum að víta málflutning sem þennan.

Málþóf eða svona langar umræður eru auðvitað þekktar og þetta er eina verkfærið sem við í stjórnarandstöðunni höfum til að koma ríkisstjórninni að samningaborðinu. Okkur hefur tekist það ágætlega á þessu kjörtímabili og þannig hefur það verið, en þetta er leiðindaaðferð og okkur ber að reyna að uppræta hana. Okkur ber að reyna að ná meiri samstöðu um hvernig mál fara í gegnum þingið þannig að til þessa þurfi ekki að koma. Það gengur ekki öðruvísi en að tekið verði meira tillit til aðstæðna og fulltrúa minni hlutans á hverjum tíma.

Veigamestu breytingarnar sem hér eru lagðar til eru þær að lagt er til að í stað þess að Alþingi ákveði með lögum hvaða ráðuneyti eru starfandi í landinu verði ákvörðun um það tekin með forsetaúrskurði. Með þessu er valdið í þessum efnum fært frá Alþingi til ríkisstjórnar og þá auðvitað fyrst og fremst til forsætisráðherra. Um þetta stendur kannski megindeilan, að taka vald frá þinginu og færa það til framkvæmdarvaldsins. Þetta gengur þvert á alla þá umræðu sem hefur verið rauði þráðurinn frá hruni þar sem kallað hefur verið eftir aukinni valddreifingu og alls ekki því að vald verði of miðstýrt. Það má nefna þar skýrslu stjórnlaganefndar, það má nefna þjóðfundinn sem haldinn var, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og alls staðar kemur fram rauði þráðurinn, krafan er aukin valddreifing. Og reyndar meira vald til þingsins, að þingstarfið verði eflt, Alþingi verði eflt, og þá á kostnað framkvæmdarvaldsins. Hér er farið gegn því. Það er í raun verið að snúa hlutunum algjörlega á hvolf þegar hæstv. forsætisráðherra talar um að hún fylgi hér eftir niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það stenst enga skoðun og er í raun alveg undarlegur málflutningur. Þetta held ég að allir séu sammála um, þetta hefur komið fram ítrekað hjá nefndarmönnum sem unnu þessa skýrslu á vegum þingsins á sínum tíma og skilningur þeirra er algjörlega skýr í þessu máli. Ef aukið vald er fært til framkvæmdarvaldsins býður það líka heim meiri misbeitingu á valdi. Við höfum orðið vör við það hjá hæstv. ríkisstjórn að menn hika ekki við að misbeita valdi sínu. Hér hefur verið nokkur umræða um það, virðulegi forseti, undanfarna daga hver aðkoma ríkisvaldsins hefur verið að svokölluðu Magma-máli. Hæstv. fjármálaráðherra var á fundi iðnaðarnefndar í morgun til að fara yfir þau mál. Þar kemur skýrt fram í þeim gögnum sem ég hef og koma að afskiptum fjármálaráðuneytisins að þar er hæstv. fjármálaráðherra án nokkurs vafa að mínu mati að misbeita valdi sínu. Þar kemur fram að ekki sé hægt að skilja hlutina öðruvísi en að hæstv. fjármálaráðherra sé á sama tíma og ríkisstjórnin er að láta nefnd um erlendar fjárfestingar fara yfir þá möguleika jafnvel að þjóðnýta þetta fyrirtæki eða taka það til baka með einhverjum hætti að gera, að manni getur skilist, a.m.k. munnlegt samkomulag við Ross Beaty, forstjóra Magma. Það kemur fram í minnisblaði um fund í fjármálaráðuneytinu með þessum fulltrúum að Íslandsbanki óski eftir því að fá staðfestingu á því samkomulagi sem fjármálaráðherra og Ross Beaty gerðu með sér um að Magma mætti eiga allt að 50% hlut í HS Orku á móti innlendum aðila. Þegar ég spurði hæstv. ráðherra um þetta atriði á fundinum í morgun sagði hann hreinlega að þetta hefði verið ofmat eða oftúlkun hjá þeim embættismanni sem þetta skrifaði. Þegar ég spurði hæstv. ráðherra að því hvað ráðuneytið hefði gert til að leiðrétta þennan misskilning og þessa oftúlkun embættismannsins var ekkert um svör. Það hafði ekkert verið gert til að leiðrétta þetta.

Svona er þessi skýrsla og þessi gögn, þau eru full af dæmum um þetta. Það kemur einnig fram í þessu að á sama tíma og ríkisstjórnin talar hér við aðila vinnumarkaðarins, Suðurnesjamenn og landsmenn alla, að öll áhersla verði lögð á það að álver rísi í Helguvík, á sama tíma er hér í samningsdrögum frá fjármálaráðuneytinu sem fara til Magma yfirlýsing um að Magma muni leita víðtækari kaupendahópa sem sérstaklega hefur umhverfisvænan iðnað að starfsemi. Þetta gerist á sama tíma og verið er að fullyrða hér við alla aðila, þingið og þjóðina að ríkisstjórnin sé heils hugar í því að greiða leið þessara framkvæmda á Suðurnesjum.

Þetta kalla ég að misbeita því valdi sem menn hafa og fara á skjön við það. Svo var það rúsínan í pylsuendanum í morgun sem er í raun alveg táknrænt fyrir starfsemi eða framkomu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að þegar ég lagði til í hv. iðnaðarnefnd eftir þennan fund að iðnaðarnefnd mundi sameinast um að láta fara fram rannsókn eða óska eftir því að fram færi rannsókn á þessum þætti þannig að það mætti hreinsa allt sem hér er út af borðinu, það mætti leggja hér skýrar línur, þá var það ekki til umræðu, ekki frekar en aðrar rannsóknir á störfum ríkisstjórnarinnar. Ég hef allan vara á því að færa aukið vald frá þinginu til hæstv. ríkisstjórnar. Og það er alveg sama hvaða ríkisstjórn er við völd, ég held að það gæti orðið erfitt að vinda ofan af þessu ákvæði ef við værum komin með það inn. Það er kannski ekki líklegt að einhverjar ríkisstjórnir fari að draga úr valdi sínu aftur eða færa vald sitt aftur til þingsins með breytingu á þessum lögum.

Það sem er fyrirferðarmest í aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið eru málefni atvinnuveganna. Margir halda því fram að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu einmitt til höfuðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, þar eigi annaðhvort að sameina ráðuneyti og mynda svokallað atvinnuvegaráðuneyti eða að færa verkefni frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, verkefni sem eru ríkisstjórninni ljár í þúfu að hafa þar í dag.

Það er mikið hættuspil sem við værum að leika með því að gefa það vald til forsætisráðherra. Ég hef setið marga fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins sem að mínu mati eru dálítið skýrt dæmi um það sem getur gerst í þessum efnum. Á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins eru á áttunda tug ríkja með sína fulltrúa. Flest þau ríki sem eru andstæðingar hvalveiða, þessi hópur skiptist um það bil til helminga, hvort menn eru fylgjandi eða andvígir hvalveiðum, en í flestum þeirra ríkja sem eru andvíg hvalveiðum heyra þessi mál undir umhverfisráðuneyti viðkomandi landa, eins og hvalveiðar hafi eitthvað með umhverfismál að gera. Mér er minnisstætt þegar sendinefnd þýska þingsins kom til okkar í fyrra í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þ.e. sú nefnd sem hefur með sjávarútvegsmál að gera þar, og við ræddum meðal annars hvalveiðar. Þá var ákveðinn skilningur í þeirri nefnd fyrir hvalveiðum okkar en þeir sögðu bara: Ja, þetta er bara ekki á okkar vettvangi, þetta er hjá umhverfisnefndinni.

Við getum öll séð hver staðan væri ef hæstv. umhverfisráðherra hefði með hvalveiðar að gera núna, hver staðan væri í þeim málum. Það sama gæti átt við um aðildarviðræður að Evrópusambandinu, hvort það væri ekki einfaldasta málið fyrir hæstv. forsætisráðherra að færa þau verkefni frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til einhverra annarra sem eru auðveldari í taumi í þeim efnum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að þessu máli sé gefinn meiri tíma og það sé reynt að setjast yfir þessi mál af einhverri yfirvegun og ná um þetta víðtækari sátt en orðin er. Það er miklu mikilvægara fyrir þetta þing í öllu tilliti og ekki síst í þeirri viðleitni að efla virðingu þingsins að við snúum okkur að mikilvægari málum en við ræðum hér nú og eyðum öllum þessum tíma í. Það er erfitt ástand í samfélaginu, atvinnuleysið er vaxandi, við erum að sjá haustuppsagnirnar dynja á okkur núna eftir sæmilegt eða heldur betra ástand í sumar en var í fyrravetur. Við lesum orðið um uppsagnir aftur í blöðum og heyrum af þeim um allan bæ. Á meðan eyðum við tíma okkar í þessi mál. Ég hefði kosið að við værum að reyna að vinna að frekari fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, við værum að skoða hér til dæmis og ræða það sem stendur í framtíðarskýrslu Landsvirkjunar sem er mjög áhugavert plagg og ég hvet alla hv. þingmenn til að kynna sér til hlítar. Í framtíðarskýrslu Landsvirkjunar, ef hún gengi eftir, en til að svo verði þarf að taka ákvarðanir sem þessi ríkisstjórn virðist ekki vera bær til að taka, það þarf að taka ákvarðanir um næstu virkjanaframkvæmdir. En ef það gengi eftir má áætla að árið 2012 verði heildartekjur ásamt fjárfestingu í iðnaði um 35 milljarðar og 2013 64 milljarðar. Áætluð áhrif á uppsafnaðan hagvöxt eru 2,5–3% árið 2012 og yfir 4% 2013. Þetta eru engar smátölur sem við erum að ræða hér.

Það má reikna með að áhrif orku- og iðnaðarfjárfestinga á fjölda starfa árið 2012 gætu verið um 2.000 störf eða rúmlega það og nálægt 3.000 störfum árið 2013. Það eina sem þarf að gera hér er að ræða þessi mál og taka skynsamlegar ákvarðanir en það er ekki hægt vegna þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur að það verði ekki gert fyrr en vinnu við rammaáætlun er lokið. Það gæti orðið ár í það eða meira jafnvel. Það er mikill ágreiningur um rammaáætlun. Á meðan verða engar ákvarðanir teknar, á meðan hjökkum við áfram í sama farinu og eyðum tíma okkar í mál sem þau sem við erum að ræða hér nú.

Þetta er að mínu mati, virðulegi forseti, ekki boðlegt og málið er náttúrlega eins og fram hefur komið algjörlega vanbúið. Það var áhugavert að hlusta hér á hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fara yfir kostnaðarhluta þessa frumvarps. Á meðan við stöndum í sársaukafullum niðurskurði og heyrum af því að það þurfi að fara enn dýpra í þau verk við næstu fjárlagagerð, fyrir fjárlagagerð næsta árs, er komið með frumvarp inn í þingið þar sem kostnaðargreining fjármálaráðuneytisins er algjörlega opin án þess að sýna nokkrar tölur og (Forseti hringir.) upplýsingar hafa komið fram í hv. allsherjarnefnd um að þetta geti kostað 130 milljónir. Það munar víða um þá peninga, virðulegi forseti. Við getum ekki (Forseti hringir.) staðið svona að málum. Við verðum að breyta hér vinnubrögðum.