139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Magma.

[10:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Íslandsbanki hafði þessar upplýsingar. Ég spyr þá hæstv. ráðherra: Hvað var gert af fjármálaráðuneytinu til að leiðrétta þær? Það stendur í bréfi frá Ross Beaty, svo að ég lesi það á ensku:

„I understand loud and clear that you do not want us to go over 50% of HS Orka and I will respect that.“

Þetta stendur hér svart á hvítu og er síðan staðfest í þessu minnisblaði, og þetta kemur ekki fram í umræddri fréttatilkynningu.

Í þessum drögum að samkomulagi, frá því í ágúst 2009, segir einnig að leita skuli annarra leiða til að selja orku frá HS Orku á Suðurnesjum. Leita skuli leiða til að finna aðra kaupendur sem eru í umhverfisvænum iðnaði.

Ég spyr þá hæstv. ráðherra: Á þeim tíma sem hann var búinn að gera stöðugleikasáttmálann við atvinnulífið, á þeim tíma sem hann var með yfirlýsingar á Suðurnesjum og hér í þinginu um enga aðkomu ríkisstjórnarinnar að þessu máli, og að ríkisstjórnin legði áherslu á að byggja upp álverið í Helguvík, (Forseti hringir.) hvaðan ætlaði hann að fá orkuna í þetta verkefni? Hvaðan ætlaði hann að taka hana? Er það úr Neðri-Þjórsá? Vegna þess að orkan á Suðurnesjum er ekki til skiptanna, ef hún fer ekki í álverið í Helguvík, ef fara á eftir (Forseti hringir.) því sem kemur fram frá ráðuneytinu, þeim áherslum, þá verður hún ekki til fyrir álverið í Helguvík.