139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þessi umræða stjórnarandstöðunnar um hver stjórni þinginu er eins og draugagangur á miðjum degi. Auðvitað stjórnar forseti Alþingis þinginu en það er kunnara en frá þurfi að segja að á lokadögum þings getur stjórnarandstaða, eða í þessu tilfelli hluti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn, knúið forseta til að bregða út frá starfsáætlun með því að krefjast miklum mun meiri tíma en allt venjulegt fólk gæti ætlað að þyrfti til umfjöllunar um tiltekið dagskrármál. Þá verður forsetinn einfaldlega að efna til fleiri funda og lengja þinghaldið og hafa kvöld- og næturfundi þannig að menn geti þjónað lund sinni í því að flytja 707. ræðuna sína og þá 708. Það er þeirra lýðræðislegi réttur en ég held (Forseti hringir.) að Framsóknarflokkurinn að hluta og Sjálfstæðisflokkurinn eigi að velta því nokkuð fyrir sér hversu skynsamlegt sé að (Forseti hringir.) taka þannig völdin af forsetanum.