139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Enn veldur hv. þm. Róbert Marshall mér miklum vonbrigðum. Aftur skætingur. Það er ekkert málefnalegt. Ég er búinn að biðja um að hér verði svarað þeim spurningum sem ég kom með. Hv. þingmaður svaraði þeim ekki. Það á bara að fara í atkvæðagreiðslu — órætt. Annar aðilinn ræðir bara málið, hinn svarar ekki. Þeir sem ætla að segja já ætla að samþykkja frumvarpið af því bara. Og kjósendur og allir aðrir eiga ekkert að vita af hverju. (RM: Ég flutti hérna klukkutímaræðu …) Sú ræða var bara upplestur. Það var ekki búin að fara fram nein umræða á Alþingi. Það er ekki búið að taka afstöðu til neinna af þeim hættumerkjum sem stjórnarandstaðan hefur bent á, það er ekki búið að taka neitt mið af þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram og ekki neitt mið af nýjum hugmyndum sem líka hafa komið fram — ekki neitt. Það er eins og engin umræða hafi farið fram. Mér finnst virkilega illa farið með Alþingi. Þetta er niðurlægjandi fyrir Alþingi.