139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna. Við sitjum saman í allsherjarnefnd og hún tilheyrir meiri hlutanum eins og fólk veit. Mér finnst athyglisvert hvernig hún fór yfir ræðu sína og svaraði hér spurningum. Ég hrósa henni fyrir að koma og svara stjórnarandstöðunni að nokkru leyti.

Mig langar að minnast á það atriði sem hún sagði um ráðherrana því að hér er verið að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið. Hún kom inn á það í máli sínu að hægt yrði að skipa tvo jafnsetta ráðherra í sama ráðuneyti. Er ekki ríkisstjórnin komin út í skurð með sameiningu sinni síðan hún tók við? Við sitjum uppi með mjög stórt velferðarráðuneyti sem dæmi. Þarna er ríkisstjórnin að finna leið til að koma fleirum að stjórn þess ráðuneytis og þá væri hægt að skipta því þar á milli. Er þetta ekki afturhvarf til fortíðar?

Mig langar líka til að spyrja hana: (Forseti hringir.) Finnst henni eðlilegt að siðareglur (Forseti hringir.) séu lögbundnar? Það kom ekki alveg nákvæmlega fram.