139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að það sé alveg ljóst þá er ég sjálfum mér samkvæmur varðandi sjálfstæði og stöðu þingsins. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að styrkja eigi stöðu þingsins og var það í stjórnarandstöðu og er sömu skoðunar þó ég sé í ríkisstjórn.

Það liggur í augum uppi að með frumvarpinu er vissulega verið að færa ákvörðunarvald sem áður var í höndum Alþingis til ríkisstjórnar því nú mundi ekki þurfa að flytja lagafrumvarp um tiltekna þætti sem áður þurfti að fara í gegnum þingið. Rök hafa verið færð fyrir því að þetta sé bara til að skýra verkaskiptinguna og hún eigi að vera sem skýrust. Það geta svo sem verið rök fyrir því. En að mínu mati á svona frumvarp að vinnast frá Alþingi og til framkvæmdarvaldsins en ekki frá framkvæmdarvaldinu til Alþingis, þó svo að Alþingi hafi að sjálfsögðu lokaorðið hvað þetta frumvarp varðar. Ég tel fulla ástæðu (Forseti hringir.) til að þetta mál sé rætt mjög ítarlega og skil það vel.