139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrir þá sem hafa verið að fylgjast með þessari löngu umræðu er eflaust erfitt að halda fullri yfirsýn yfir þau mörgu átakamál eða ágreiningsefni sem hafa komið fram í umræðunni. En það er samt þannig að í grunninn er tekist á um tiltölulega einfalt grundvallaratriði. Það er hvort forsætisráðherrann eigi að fá fullt frelsi til að koma á fót, leggja niður, kljúfa í sundur ráðuneyti og færa verkefni milli þeirra eftir eigin höfði eða hvort við eigum að viðhalda þeirri gömlu góðu reglu að það þurfi að bera slík mál undir þingið. Þetta er kjarni þess ágreinings sem hefur orðið efni til þessarar löngu umræðu.

Það hefur í þessu sambandi algerlega skort á að hæstv. forsætisráðherra, sem ýtir á eftir málinu af mikilli hörku, blandi sér í umræðuna og komi fram með einhver minnstu rök fyrir því að það sé of þungt í vöfum, of viðurhlutamikið, of erfitt, tafsamt eða hvað það á að vera fyrir einn forsætisráðherra að bera nýja ráðuneytaskipan undir Alþingi til samþykkis. Þetta vekur auðvitað upp spurningar.

Í fyrsta lagi þetta: Hvenær eru ný ráðuneyti almennt mynduð og gerðar breytingar á verkefnaskipan milli ráðuneyta? Er það ekki að jafnaði þegar við skoðum söguna einu sinni á kjörtímabili? Það er helst í upphafi nýs kjörtímabils sem ný ríkisstjórn vill setja fingraför sín á Stjórnarráðið með því að koma á fót einhverju nýju ráðuneyti, auka áherslur á einhvern tiltekinn málaflokk o.s.frv. Þegar þetta hefur verið raunin hafa menn komið með þingmál um það efni inn í þingið. Fyrst hafa þeir auðvitað náð meiri hluta um að fara þá leið og svo hafa menn komið með það þingmál inn í þingið og það hefur fengið sína eðlilegu meðferð. Þetta er líka þekkt annars staðar frá eins og t.d. í Finnlandi þar sem venjan er að eitt fyrsta málið eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar sé einmitt ráðuneytaskipanin.

Við skulum gefa okkur að ríkisstjórnin klári sig af þessu í upphafi kjörtímabils, þá er samkvæmt því sem ég hef rakið að jafnaði mjög óvanalegt að þess gerist þörf að nýju á sama kjörtímabilinu að gera breytingar á Stjórnarráðinu. En jafnvel þótt það kæmi upp þá sýnir nýleg reynsla okkur það að vel er hægt að gera breytingar á Stjórnarráðinu. Það hefur að ég hygg verið gert í þrígang undanfarin fjögur ár. Síðastliðin fjögur ár hafa breytingar á Stjórnarráðinu af þessu tagi verið gerðar á Alþingi.

Hvað er það þá sem þrýstir svo mjög á um að ráðherrann fái þessa víðtæku heimild og þurfi ekki lengur að koma með breytinguna inn í þingið? Hefur eitthvert tilvik komið upp þar sem ríkisstjórnin er í vanda stödd vegna þess að hún þarf á allra næstu dögum að koma á fót ráðuneyti og getur ekki beðið eftir umræðu þingsins? Getum við ímyndað okkur slíkt tilvik að ríkisstjórn sem er að störfum í landinu standi frammi fyrir því skyndilega í lok einnar vikunnar að hún verði að koma á fót nýju ráðuneyti helst strax í næstu viku og þess vegna sé nauðsyn núna að koma breytingum inn í stjórnarráðslögin til að tryggja forsætisráðherra það vald?

Við þekkjum það í mörgum lögum að ráðherrum er falið víðtækt vald til að útfæra ýmsa hluti. En um svo stór grundvallaratriði hefur gilt sú reglan á þingi og í íslenskum lögum að hafa samráð við þingið og mál eins og stofnun nýrra ráðuneyta og ráðuneytaskipan almennt eru mál þess eðlis að ekki á sífellt að hringla með þau. Það verður að ríkja einhver ákveðin festa, ekki bara formfesta heldur líka stjórnarfarsleg festa, annars er hætta á mikilli sóun í stjórnkerfinu bæði á tíma og fjármunum og að mál detti milli skips og bryggju ítrekað, óvissa verði í einstökum ráðuneytum, mál sem verið sé að færa á milli ráðuneyta þvælist þar á milli og taki lengri tíma í afgreiðslu o.s.frv. Allt ætti þetta að blasa við mönnum. Það er kannski um leið ein af ástæðum þess að ekki hafa verið gerðar miklar grundvallarbreytingar á Stjórnarráðinu reglulega þó að það hafi vissulega þróast töluvert mikið í áranna rás, smám saman, eðlilegar breytingar, eftir því sem verkefnin sem við erum að fást við breytast að eðli til.

Frú forseti. Ég tel augljóst að við munum aldrei standa frammi fyrir því að ríkisstjórnin í landinu eða forsætisráðherrann þurfi á örfáum dögum að koma á fót nýju ráðuneyti eða kippa máli frá einum ráðherra til annars með engum fyrirvara. Það eru einfaldlega engar líkur á því. Þrátt fyrir þá niðurstöðu, fyrir mitt leyti a.m.k., vitum við það samt sem áður að það geta komið upp pólitískar deilur um þessi efni. Það eru skammtímavandamál sem einstakar ríkisstjórnir glíma við eins og sú ríkisstjórn sem er að störfum í dag. Það er því niðurstaða mín að ríkisstjórnin og þá hæstv. forsætisráðherra leggi til þessa veigamiklu breytingu á stjórnarráðslögunum, sem gilda til langs tíma, og klæða í faglegan búning til að reyna að leysa skammtímainnanbúðarvandamál í ríkisstjórninni.

Hvað hef ég fyrir mér í þessu? Það má t.d. vísa í ræður hæstv. ráðherra innanríkismála og sjávarútvegs- og landbúnaðarmála sem eru ósammála málinu, þessu prinsippatriði. Það má vísa í stjórnarsáttmálann sjálfan og benda á að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki náð samstöðu um að koma á fót atvinnuvegaráðuneyti. Það má benda á þá augljósu staðreynd að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra annars vegar og hæstv. utanríkismálaráðherra hins vegar eru á öndverðum meiði um framgang viðræðna við Evrópusambandið. Eins og alþjóð veit er hæstv. forsætisráðherra á bandi utanríkisráðherrans í því máli og er að sækjast eftir heimildum til að hlutast til um mál af þeim toga. Við þeim okkar sem fylgjast með þessum málum frá degi til dags blasir einfaldlega sú auma staðreynd að það er engin fagmennska á bak við þessa tillögu og engin sérstök framtíðarsýn, heldur skýrsla nefndar sem forsætisráðuneytið sjálft kom á fót, skipaði í, fékk aftur til sín og kynnir hér sem hina faglegu niðurstöðu — nefnd sem forsætisráðuneytið sjálft kom á fót, komst að niðurstöðu sem hentaði forsætisráðherranum sem skipar það embætti í dag og leggur til þessa breytingu við þingið undir þessu falska yfirskyni. Í raun og veru er einungis verið að reyna að leysa innanbúðarvandamál ríkisstjórnarinnar sem er skammtímavandamál. Þetta er það sem blasir við öllum þeim sem hafa fylgst með átökunum innan ríkisstjórnarinnar og kynnt sér þetta mál ofan í kjölinn. Þannig er það.

Það eru fleiri atriði í þessu máli sem vekja athygli og eru mjög á skjön við þær helstu áherslur sem við ættum sjá koma frá ríkisstjórninni í nýjum málum. Ég nefni bara sem dæmi hugmyndina um að verja núna 100–200 millj. kr. í nýja aðstoðarmenn í Stjórnarráðinu. Það var ákveðið á þingi fyrir nokkrum árum að skynsamlegt væri að opna fyrir möguleikann á aðstoðarmönnum fyrir landsbyggðarþingmenn. Við höfum hins vegar ekki talið undanfarin ár að til væru fjármunir til að fylgja þeirri hugmynd eftir. Þess vegna hefur hún ekki komist í framkvæmd. En stjórnarmeirihlutinn leggur á sama tíma til að strax á þessu kjörtímabili við gildistöku þessara laga verði stór fjölgun á aðstoðarmönnum í Stjórnarráðinu. Þetta er óskiljanlegt fyrir almenning í landinu, alla þá sem hafa beðið eftir alvöruaðgerðum sem snerta hag heimilanna og sjá það í hendi sér að þetta er ekkert nema sóun á þessum samdráttartímum.

Það blasir væntanlega líka við þjóðinni að þegar þetta mál er til umræðu, hvort forsætisráðherrann fái heimild til að koma á fót ráðuneyti, leggja niður, sameina og gera þá hluti sem hæstv. forsætisráðherra fer fram á, komast önnur brýn mál ekki á dagskrá. Ég get sagt það fyrir mitt leyti að það hefur enginn frá því að ég var kosinn á Alþingi haft samband við mig og gert kröfu til þess að forsætisráðherrann fengi slíka heimild. Það hafa hins vegar hundruð ef ekki þúsundir manna haft samband við mig bréflega, símleiðis, með tölvupósti og öðrum hætti til að kalla eftir aðgerðum fyrir heimilin. (Gripið fram í: Já!) Hver er að kalla eftir því í þjóðfélaginu að það verði fært í lög að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið? (Gripið fram í: Forsætisráðherrann.) Já, ég held að það sé rétt sem kallað er fram í, það er ein manneskja í landinu og svo hlaupa auðvitað á eftir henni flestir hinir ráðherrarnir, ekki þó þeir sem ég hef getið um í ræðu minni, og sumir stjórnarliðar. Síðan er það kallað ofbeldi í fjölmiðlum af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni að vekja máls á því hvernig ríkisstjórnin gengur fram í þessu máli og hvernig forsætisráðherrann teflir fram málstað sínum. Menn kalla það ofbeldi. Þetta er algerlega ótrúlegur málflutningur, ekki síst frá hæstv. forsætisráðherra sem hefur farið fremst í flokki þeirra sem hafa unnið að því að stöðva mál sem hún hefur verið ósammála í gegnum tíðina og sett þingmet í lengd ræðutíma.

Það er líka hálfhjákátlegt að hlusta á marga stjórnarliða tala um það að stjórnarandstaðan ætli að koma í veg fyrir að meirihlutavaldið nái fram að ganga. Margir þeirra sem hafa haldið því fram í ræðustóli eru þeir sem komu t.d. í veg fyrir að frumvarpið um Ríkisútvarpið næði fram að ganga þing eftir þing. Ég hygg að menntamálaráðherra hafi í þrígang þurft að koma með það mál bara til að fá það fullrætt í þinginu. Það var sífellt tekið í gíslingu af mörgum þeim sem hér hafa kvartað undan því að stjórnarandstaðan vilji tjá sig um forsætisráðherramálið nú sem enginn í þjóðfélaginu er að kalla eftir. Og á listanum á dagskrá þingsins eru tugir annarra mála sem við erum meira en reiðubúin að hefja nú þegar umræðu um og flest þeirra geta fengið afgreiðslu án nokkurrar fyrirstöðu af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ég nefni sem dæmi frumvarp frá fjármálaráðherra um að framlengja heimildina til að geta tekið út séreignarsparnað. Það er eitt af málunum sem er á dagskrá. Stjórnarmeirihlutinn vill ekki fá það á dagskrá, hann vill taka forsætisráðherramálið fram yfir og hefur hagað málum þannig í þinginu að við höfum rætt í nokkra daga um kröfu forsætisráðherra um að fá að skipa Stjórnarráðið eftir eigin höfði. Það er ótrúleg staða sem er boðið upp á á Alþingi. (TÞH: Óverðtryggð lán hjá Íbúðalánasjóði.) Já, það eru fleiri þörf mál á dagskrá eins og að bjóða upp á óverðtryggð lán hjá Íbúðalánasjóði, að hann geti farið í útgáfu á óverðtryggðum lánum. Fjölmargt fleira mætti telja til sem er á dagskrá en þetta hrópar á okkur og ég finn það á fólki að það á erfitt með að skilja hvers vegna umræðan stendur svona lengi. Það er ekki vegna þess að við í stjórnarandstöðunni séum að koma í veg fyrir að önnur mál komist á dagskrá, þvert á móti erum við að kalla eftir því eins og þjóðin að það verði rætt um önnur og brýnni málefni. Við erum líka að kalla eftir því að í þessu máli verði dregið úr forsætisráðherravæðingunni, það verði dregið úr þeirri sóun og því bruðli sem fylgir sumum af greinunum sem ég hef vitnað til, samanber aðstoðarmannafjölgunina, og við erum almennt að kalla eftir því að haldið verði í þá gömlu góðu reglu að þingið hafi eftirlit og aðhald með framkvæmdarvaldinu.

Frá því að ég settist inn á þing hef ég ítrekað vakið athygli á þörfinni fyrir að styrkja þingið. Ég fagna því sem fram hefur komið í máli ræðumanna úr mörgum flokkum í dag, ýmist úr stjórnarliðinu eða utan þingflokka, eins og kom fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar og hæstv. innanríkisráðherra, að þörf sé á að styrkja þingið. Það er engin þörf á því að auka völd framkvæmdarvaldsins yfir þinginu. Það kemur mjög á óvart að það skuli hafa myndast meiri hluti um slíkt í allsherjarnefnd og það kemur jafnframt á óvart að ríkisstjórnin skuli tefla slíku máli fremst í forgangsröðina.

Ég vil láta þess getið að stjórnarandstöðuflokkarnir Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur lögðu fram skriflegar hugmyndir um það hvernig væri hægt að betrumbæta þetta mál. Þrátt fyrir að báðir hafi þeir tekið þátt í störfum nefndarinnar sem fjallaði um málið þá náðist einfaldlega ekki sameiginleg niðurstaða þar. Í dag var tekinn saman listi yfir þau atriði sem þyrfti að færa til betri vegar til að málið gæti fengið framgang án mikið lengri umræðu í þinginu. Ef ekki er fallist á það er sú staða í raun og veru komin upp að stjórnarmeirihlutinn vill láta á það reyna án þess að færa fyrir því nokkur sérstök rök að forsætisráðherravæðingin nái fram að ganga. Önnur mál sem varða hag heimilanna í landinu sitja þá á hakanum. Þetta er óskaplega dapurleg staðreynd. Undir niðri ráða pólitískir skammtímahagsmunir för.

Við höfum séð þetta í öðrum málum í þinginu. Efnt er til ágreinings við stjórnarandstöðuna að tilefnislausu. Frumvarpið um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu er dæmi um það. Um það mál var efnt til víðtæks samráðs á árinu 2010 en þegar kom að því að semja frumvarpið þá lokuðu þau sig af, forsætisráðherrann ásamt með nokkrum öðrum ráðherrum og ráðgjöfum, og settu saman frumvarp með aðstoð lítils hóps sem við getum kallað súperþingmenn sem fengu að koma að því máli á því stigi þegar var verið að smíða málið, tefldu því fram af miklu offorsi í júní og heimtuðu að málið yrði afgreitt — komu með málið rúmlega tveimur mánuðum eftir að tími til að leggja fram ný frumvörp rann út og heimtuðu að málið yrði afgreitt þegar stjórnarandstaðan hreyfði andmælum, kröfðust þess að málið fengi umsagnir og vandlega meðferð. Hvað var þá sagt? Hvað hrópuðu þá stjórnarliðar að okkur í stjórnarandstöðunni? Hér birtast ykkur sérhagsmunagæslumennirnir. (Forseti hringir.) Svo kemur forsætisráðherrann fram eins og hún gerði í fjölmiðlum í dag og segir: Það er stjórnarandstaðan sem er að beita ofbeldi. (Forseti hringir.) Þetta minnir á öfugmælavísu eins og „gott er að hafa gler í skó / þá gengið er í kletta“. Þetta er allt öfugt, (Forseti hringir.) á hinn veginn. Ríkisstjórnin snýr öllu á rönguna. (Forseti hringir.)