139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. (BJJ: Vanda orðaval!) Ég tek undir ósk hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra komi hingað og svari spurningum þingmanna. Það var mjög gott og gagnlegt að hæstv. innanríkisráðherra skyldi koma hingað upp áðan og svara brýnum spurningum. Mér finnst góður bragur á því hjá hæstv. innanríkisráðherra og kallar það enn skýrar eftir því að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, sem ég hygg að séu í húsi, séu í þingsal undir umræðunni.

Hæstv. forsætisráðherra er flutningsmaður þessa máls, leggur það fram og vill endilega að það sé afgreitt. Hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra sér enga ástæðu til að taka þátt í umræðunum? Hvers vegna er nánast ómögulegt að fá hæstv. forsætisráðherra til að koma í andsvör við þingmenn og svara einföldum spurningum? Ég fer fram á það við virðulegan forseta að hún svari því hvort hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra séu væntanleg hingað í þingsal til að svara spurningum þingmanna.