139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. (BJJ: Það er verið að sniðganga okkur, algjörlega.) Ég vil beina því til hæstv. forseta að hvetja hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra til að koma og taka þátt í umræðunni. Nú hafa tveir hæstv. ráðherrar stigið fram og látið í það skína og jafnvel sagt það nánast með beinum orðum að þetta frumvarp feli í sér aukið vald forsætisráðherra, valdflutning frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra. Munu þeir treysta sér til að samþykkja frumvarpið? Fleiri eru að koma fram sem treysta sér ekki til að fylgja hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra í þeirri vegferð að flytja vald frá Alþingi Íslendinga til framkvæmdarvaldsins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að núna komi þessir hæstv. ráðherrar hingað í þingsal, taki þátt í þessari umræðu og svari þeim spurningum sem búið er ítrekað að reyna að beina til þeirra í umræðunni í allan dag og alla þessa viku. (Gripið fram í.)