139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta.

Nú hefur það margoft komið fram í þessari umræðu að mikilvægt sé að ákveðin festa sé á Stjórnarráðinu og þeim málum sem því tengjast, ákveðin formfesta, og að ekki sé verið að hringla í þessu nánast daglega, vil ég segja. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið mjög mikill hringlandaháttur í þessu máli. Ég fór yfir það í ræðu hér, og það kemur fram í nefndaráliti hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að nú sé til að mynda gríðarlega oft búið að breyta í lögum nöfnum sem tengjast innanríkisráðuneyti. Áður voru það önnur ráðuneyti. Nú verður það afnumið. Þetta virðist vera eilífur hringlandaháttur á Stjórnarráðinu og einhvern veginn hefur tekist í hvert sinn að gera þetta í algjörum ágreiningi, bæði innan ríkisstjórnarinnar og milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Í ljósi þessa langaði mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að eðlilegast sé að (Forseti hringir.) standa að málum (Forseti hringir.) þvert á þingflokka (Forseti hringir.) þegar (Forseti hringir.) ráðist (Forseti hringir.) er í (Forseti hringir.) breytingar sem þessar?