139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[11:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni svarið. Eins og hv. þingmaður nefndi og tók undir það sem ég sagði áðan þá fékk málið ágæta umfjöllun í nefndinni. Leitað var eftir tillögum frá ráðuneytinu í ýmsum hugmyndum sem þar komu upp. Það að ekki skuli hafa verið farið að tillögum ráðuneytisins þarf ekkert endilega að þýða að nefndin hafi ekki unnið verk sitt vel. Það er þannig að nefndir fá frumvörp til umsagnar og fylgja þeim eftir samkvæmt gögnum, umsögnum og viðtölum, samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndir afla sér, og komast að tiltekinni niðurstöðu. Ég held að það fari ekkert vel á því og sé ekki í anda þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu að nefndum beri í sjálfu sér að fara að tillögum ráðuneyta fremur en annarra.

Niðurstaðan varð einfaldlega sú, eftir að hafa leitað allra umsagna hjá hagsmunaaðilum og ráðuneyti, að leggja fram þá breytingartillögu við frumvarpið sem lögð hefur verið fram. Málið var ekki afgreitt fyrirvaralaust úr nefndinni eins og hv. þingmaður nefnir, það var aðdragandi að því að það var tekið út, en ég skal viðurkenna að nefndarálitinu hefði mátt dreifa fyrr. Ég er almennt þeirrar skoðunar að það eigi að gera miklu fyrr og áður en nefnd afgreiðir mál þannig að nefndarmönnum gefist færi á að kynna sér nefndarálit áður en þau eru samþykkt eða afgreidd úr nefndum. En það var aðdragandi að því að taka málið úr nefnd áður en kom til þessa fundar.

Þetta mál snýst í sjálfu sér ekki um mikilvægi sjávarútvegs eða mikilvægi tiltekins hluta sjávarútvegs, hvort sem það eru smáútgerðir eða stórútgerðir, það er ekki kjarni þeirra tillagna sem við erum að leggja til og snýst ekki um það. Við viðurkennum mikilvægi smábátaútgerðar á Íslandi en að okkar mati verður að leita annarra leiða til að innheimta fyrir þá félagsgjöld en þeirra sem frumvarpið felur í sér.