139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

greiðsluþjónusta.

673. mál
[11:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að þakka mér áhuga á málinu. Þetta er mál sem eiginlega allir þingmenn ættu að hafa áhuga á og hver einasti borgari. Hvað ef kreditkortin virkuðu ekki? Ég bið hv. þingmann og aðra áheyrendur að hugleiða hvað mundi gerast ef menn gætu ekki borgað með kreditkortunum sínum. Eftir tvær vikur yrðu menn svangir af því að það væri ekki hægt að kaupa neitt. Eftir þrjár, fjórar vikur yrðum við komin í verulega slæm mál, hungursneyð. Við verðum sífellt háðari þessu kerfi. Eftir því sem rammi bankaþjónustu og greiðsluþjónustu verður betri og kerfið þjálla þeim mun háðari verðum við því. Þetta eru hlutir sem menn þurfa að ræða. Við getum séð fyrir okkur tölvuárás, við getum séð fyrir okkur stríð, við getum séð fyrir okkur hryðjuverk eða eitthvað slíkt. Menn þurfa að vera undir það búnir og ekki voðalega hissa þegar það gerist.

Tobin-skatturinn minnkar ekki áhættu en hann hægir á ferlunum. Þar sem þessar færslur eru nánast ókeypis á milli landa fljúga gífurlegir fjármunir fram og til baka yfir Atlantshafið og milli landa, þvílíkt magn af fjármunum að menn geta ekki ímyndað sér það. Tobin-skatturinn mundi hægja á því þannig að ferlarnir yrðu dálítið hægari og sveiflurnar ekki eins miklar.

Varðandi kostnaðinn er merkilegt að þegar ég nota krítarkortið mitt í verslun í staðinn fyrir að borga með peningum þá borga ég ekki kostnaðinn heldur verslunin. Það er athyglisvert. Þetta er líka á öðrum stað í hagkerfinu. Þegar kröfuhafi sendir kröfu í innheimtu þá borgar skuldarinn kröfuna en ekki sá sem biður um innheimtuna. Á báðum sviðum þarf að gæta þess að innheimtan verði ekki of mikil eða kostnaðurinn of mikill.